Innlent

„Jafnrétti er númer eitt, tvö og þrjú í því að búa til samfélag“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Elísabet Jökulsdóttir forsetaframbjóðandi notaði dúkku til að aðstoða sig við að svara spurningum í beinni hjá Nova.
Elísabet Jökulsdóttir forsetaframbjóðandi notaði dúkku til að aðstoða sig við að svara spurningum í beinni hjá Nova. Vísir/GVA
Elísabet Jökulsdóttir forsetaframbjóðandi hvetur allar konur til að kjósa sig í komandi forsetakosningum. Hún segir konur fara halloka eins og er en sjálf er hún í framboði vegna þess að hún telur sig hafa eitthvað fram að færa. Þetta kom fram þegar rætt var við Elísabetu í beinni á Facebook-síðu Nova í dag.

Hún var spurð af hverju hún væri að bjóða sig fram til forseta.

„Þetta var þessi tilfinning að fyrst langaði mig að bjóða mig fram og vita hvað í því fælist. Síðan vildi ég finna í mér leiðtogann því ég vissi að hann væri þarna og ég hef verið mjög hreykin af sjálfri sér. Ég hvet allar konur til að bjóða sig fram og til að kjósa mig því konur eru að fara halloka eins og er,“ sagði Elísabet.

Hún sagðist viss um að hún hefði eitthvað fram að færa í forsetaembættið sem hún sagði að snerist ekki aðeins um að hafa skoðanir á málefnum heldur að hafa áhuga á fólki:

„Og ég hef alltaf haft mjög mikinn áhuga á fólki og ég held að það sé grunnurinn fyrir ýmislegt annað og önnur málefni eins og lýðræði og frelsi.“

Þá sagði Elísabet að hún vilji vera forseti því henni finnist hún hafa eitthvað að segja.

„Ég er venjuleg manneskja. Ég er öryrki, ég er með geðhvörf, ég er óvirkur alkóhólisti. Ég hef alið upp þrjá drengi, ég á átta ömmustelpur, ég hef staðið í skilnaði, átt í ofbeldissambandi,“ sagði Elísabet.

Hún sagðist vera í framboð til þess að vinna. Þá sagði hún að það væri sín skoðun að auðlindir ættu að vera í þjóðareign og svaraði játandi þegar hún var spurð að því hvort hún væri jafnréttissinni:

„Já, jafnrétti er númer eitt, tvö og þrjú í því að búa til samfélag.“

Þá sagði Elísabet að hana langi til að vera forseti til að geta hjálpað öðrum, hlustað á aðra og til að geta tengt fólk saman.


Tengdar fréttir

Guðni Th. enn með langmest fylgi

Guðni Th. Jóhannesson heldur forystunni með 65,6 prósent fylgi. Næstur á eftir honum er Davíð Oddsson með 18,1 prósent fylgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×