Stjarnan er á toppnum í Pepsi-deild karla eftir þrjár umferðir en liðið er með fullt hús eða níu stig eftir þrjá leiki.
Stjörnumenn unnu nýliða Þróttar, 6-0, í þriðju umferðinni í gærkvöldi þar sem Guðjón Baldvinsson var tveimur sekúndum frá því að skora fljótasta markið í sögu efstu deildar.
Sjá einnig:Þróttur byrjaði með boltann en Guðjón skoraði eftir níu sekúndur | Sjáðu markið
Varamannabekkur Stjörnumanna hefur verið á milli tannanna á fótboltaáhugamönnum og það réttilega. Á bekk liðsins eru margir leikmenn sem myndu ganga inn í önnur lið deildarinnar. Svo sannarlega lúxusvandamál fyrir Rúnar Pál að velja í liðið.
Þessi dúndurbekkur er að skila sínu því varamenn Stjörnunnar eru búnir að skora fimm af tíu mörkum liðsins í fyrstu þremur umferðunum og tryggja liðinu sex af níu stigum þess.
Veigar Páll Gunnarsson kom inn á sem varamaður í stöðunni 0-0 gegn Fylki í fyrstu umferðinni og skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri. Halldór Orri Björnsson skoraði svo sigurmarkið, 2-1, gegn Víkingi í annarri umferð deildarinnar.
Stjörnumenn voru búnir að afgreiða Þrótt þegar Jeppe Hansen kom inn á sem varamaður í gærkvöldi en danski framherjinn gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk nánast á sömu mínútunni í 6-0 sigrinum. Það voru mörk númer fjögur og fimm hjá varamönnum Stjörnunnar við upphaf Íslandsmótsins.
Stjarnan er aðeins búin að fá á sig eitt mark og er með markatöluna 10-1 eftir þrjár umferðir. Liðið er það eina með fullt hús og mætir KR í stórleik fjórðu umferðar á þriðjudaginn.
Aðeins einu sinni áður hefur Stjarnan verið með fullt hús í Pepsi-deildinni en það var sumarið 2009 þegar liðið var nýliði í deildinni. Liðið hefur nú unnið sjö leiki í röð í Pepsi-deildinni; síðustu fjóra í fyrra og fyrstu þrjá í ár.

