Innlent

Davíð segir leigupenna hagræða sannleikanum um hrunið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Davíð Oddsson í kosningamiðstöð sinni.
Davíð Oddsson í kosningamiðstöð sinni. Vísir/Anton
Davíð Oddsson forsetaframbjóðandi segir að þeir sem mesta sök beri á hruninu hafi farið í það verkefni að ráða sér leigupenna til þess að koma sökinni af sér og yfir á þá sem höfðu varað við hruninu. Segir Davíð að þetta hafi verið „merkilegt uppátæki.“

Þetta er á meðal þess sem fram kom í máli hans í dag þegar hann var í beinni útsendingu á Facebook-síðu fjarskiptafyrirtækisins Nova.

Þar var hann spurður hvort hann teldi mikla reiði vera í samfélaginu. Svaraði hann því til að hann vissi ekki hvort hægt væri að mæla reiðina en sumir vildu nýta sér hana og jafnvel hafa af henni pólitískan ávinning. Hann fór síðan að ræða bankahrunið:

„Ég held að eftir að bankarnir féllu og hrunið gekk í garð að þá hafi mikil vonbrigði ríkt og fólk varð margt illa úti og það getur enginn áfellst fólk þegar slíkt gerist og það skynjar að það átti ekki sjálft nema litlu eða engu leyti sök á því þá langar fólkinu að finna sökudólg eða sökudólga og láta reiði sína með einum eða öðrum hætti bitna á þeim. Það er bara mjög eðlilegt. En því miður var það svo að kannski þeir sem mesta sök báru en áttu og eiga mjög mikla peninga og eiga enn þeir fóru í það verkefni að ráða sér leigupenna í stórum stíl til þess að koma sökinni af sér á þá sem höfðu varað við. Það var merkilegt uppátæki.“

Um liðna helgi var Davíð spurður að því í útvarpsþætti á Bylgjunni hverjum hrunið hafi verið að kenna, en hann sjálfur var til að mynda á lista bandaríska tímaritsins Time yfir þá sem bæru ábyrgð á hruninu.

„Það hafa margir skrifað um að það sé ég. Ekki bara hér á landi, heldur halda því fram að ég hafi valdið hruninu á alþjóðavísu. En ætli það sé ekki okkur öllum, nær og fjær, að kenna,“ sagði Davíð á Bylgjunni.

Sjá einnig: Davíð Oddsson: Hrunið okkur öllum að kenna

Viðtalið við Davíð á Facebook-síðu Nova má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×