Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta, furðar sig á þeirr ákvörðun skoska knattspyrnusambandsins að spila leik kvennaliðsins gegn Íslandi á gervigrasi.
Ísland og Skotland mætast í stórleik riðils eitt í undankeppni EM 2017 þann 3. júní en Freyr og aðstoðarmenn hans tilkynntu hópinn á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag.
Skotar spiluðu vináttuleik á gervigrasinu í Falkirk gegn Spánverjum sem undirbúning fyrir leikinn gegn Íslandi en þetta virðist vera taktík hjá Skotunum til að hafa forskot á stelpurnar okkar.
Sjá einnig:Tveir af fremstu miðjumönnum Evrópu mætast í Falkirk
„Ég skil ekki þessa ákvörðun Skota að spila á gervigrasi. Ég er alls ekkert óánægður með að spila á gervigrasinu þarna. Þetta er góður völlur en hver ástæðan er skil ég ekki,“ sagði Freyr á blaðamannafundinum í dag.
Markavélin Harpa Þorsteinsdóttir, leikmaður Stjörnunnar og framherji íslenska landsliðsins, fagnar fréttunum vafalítið mikið enda vön því að spila á gervigrasi í Garðabænum.
Harpa er búin að skora sex mörk í undankeppni EM og hefur skorað 99 mörk fyrir Stjörnuna í efstu deild í 82 leikjum síðan hún gekk í raðir félagsins árið 2011. „Harpa er að opna kampavínsflösku núna,“ sagði Freyr léttur um stjörnuframherjann sinn á blaðamannafundinum í dag.
Sjá einnig:Freyr: Ekki í boði að vera fórnarlömb út af strákunum
Ekki nóg með að Skotarnir ætli að spila á gervigrasi sagði Freyr að þeir séu búnir að vera mjög hrokafullur í garð íslenska liðsins. Í Skotlandi eru stelpurnar okkar talaðar niður og skoska liðið sagt mun betra.
„Ég fagna því vegna þess að þær fá þetta bara í andlitið þegar þær mæta okkar stelpum. Skoska liðið er hungrað og vill komast á EM eftir að tapa tvisvar sinnum í umspili í síðustu undankeppnum. Ég tel það veikleika hjá liðinu að tapa í umspili en samt eru þær að daðra við að vera hrokafullar í garð Íslands,“ sagði Freyr Alexandersson.
