Hrafnhildur Lúthersdóttir mun keppa til úrslita í 200 metra bringusundi á morgun á Evrópumótinu í sundi sem fer fram í London.
Hrafnhildur endaði í 3. sæti í sínum riðli í undanúrslitasundinu, en hún kom í mark á 2:24,11 mínútum.
Chloe Tutton kom fyrst í mark í riðli Hrafnhildar á 2:23,76, en Hrafnhildur var fyrst eftir 50 metra.
Hún varð svo önnur eftir 150 og endaði að lokum í þriðja sætinu á eftir Tutton og Viktoriu Gunes.
Úrslitin úr síðari riðlinum gera það að verkum að Hrafnhildur mun keppa til úrslita í bringusundi annað kvöld.
Hún fer með fjórða besta tímann inn í úrslitin, en úrslitasundið fer fram klukkan 17.40 annað kvöld.
Heimsmetshafinn, Rikke Möller Pedersen, var 1/100 á undan Hrafnhildi inn í úrslitin.

