Sport

Anton Sveinn: Dýrmæt reynsla fyrir mig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Anton Sveinn McKee í lauginni.
Anton Sveinn McKee í lauginni. vísir/valli
Anton Sveinn McKee viðurkennir að hann hefði vonast eftir betri úrslitum en áttunda og síðasta sætinu í úrslitasundin í 200 m bringusundi á EM í London í dag.

Sjá einnig: Anton Sveinn áttundi í bringusundinu

Anton Sveinn kom í mark á 2:11,73 mínútum og náði sér ekki á strik eftir að hafa verið með fjórða besta tímann í undanúrslitunum í gær.

„Ég er bara hress. Ég náði að taka vel á,“ sagði Anton Sveinn og var glaður í bragði þegar blaðamaður Vísis ræddi við hann.

„Ég gerði mér í raun ekki vonir um ákveðinn tíma. Ég hugsaði frekar um að keppa og fá reynslu. Ég er ekki fullhvíldur og því erfitt að meta árangurinn nákvæmlega.“

„En auðvitað vill manni ganga eins vel og kostur er. Síðasta sætið er ekki það sem maður vill,“ sagði Anton Sveinn. „En ég er samt sáttur með sundið og mótið yfir höfuð hingað til.“

Anton Sveinn komst einnig í úrslit í 100 m bringusundi og hefur svo keppni í 50 m bringusundi á morgun.

„Mér tókst að vera nálægt mínum bestu tímum í báðum greinum og það er nýtt fyrir mér að keppa til úrslita á stórmóti. Ég sá að ég náði þangað inn þrátt fyrir litla hvíld og reynslan af því er afar dýrmæt.“

„Það verður svo áhugavert að keppa í 50 m sundinu á morgun. Það er nýtt fyrir mér að keppa í þeirri vegalengd en ég mun gefa allt sem ég á í greinina.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×