Tíska og hönnun

Horfði á íslenska náttúru með nýjum augum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
“Þetta verkefni hefur tekið sinn tíma, enda hefur það verið tómstundaiðja og ég get ekki lýst því hvað það hefur verið skemmtilegt,” segir Edda Valborg um bókaútgáfuna.
“Þetta verkefni hefur tekið sinn tíma, enda hefur það verið tómstundaiðja og ég get ekki lýst því hvað það hefur verið skemmtilegt,” segir Edda Valborg um bókaútgáfuna. Vísir/Pjetur
„Ég er ekki með græna fingur og enga sérstaka visku í sambandi við blóm en þau gleðja mig því ég hef auga fyrir öllu því fagra í kringum mig, litum, formum og mynstrum. Mér finnst líka náttúran í kringum okkur undraverð,“ segir Edda Valborg Sigurðardóttir grafískur hönnuður sem nýlega gaf  út bókina Stafrófið í íslenskum blómum.

Ekki segir Edda Valborg þar um tæmandi fræðibók að ræða. „Þetta er einföld bók sem á að gleðja augað og vonandi hugann og ég álít að hún sé bæði fyrir börn og fullorðna. Mér fannst svolítið gaman að setja hana í sérstakt samhengi og því ákvað ég að vinna þessar ljósmyndir og tengja þær inn í stafrófið.“

Hún kveðst hafa tekið myndir af blómunum í sínu náttúrulega umhverfi þegar hún var á ferðalögum um landið undanfarin sumur og kannað svo hvað þau hétu þegar hún kom heim, bæði með því að grúska í bókum og fletta upp í vinum og kunningjum sem viti heilmikið um blóm.  „Þetta verkefni hefur tekið sinn tíma, enda hefur það verið tómstundaiðja og ég get ekki lýst því hvað það hefur verið skemmtilegt,“ segir hún.

Eitt blóm er í aðalhlutverki með hverjum staf í stafrófinu og inn í það ákvað Edda Valborg að vefja ylhýra málið okkar. Þannig kveðst hún hafa viljað skerpa á því að við þurfum að vanda okkur í meðförum þess, framburði og orðavali.

„Ég fann vísur, ljóð og þulur sem mér fannst eiga við,“ segir hún og bætir við: „Ég ól börnin mín upp í Bandaríkjunum, því ég bjó þar lengi, og hafði gaman af að hafa fyrir þeim ýmis íslensk orðtök sem eru kannski ekki á allra vörum eins og „viti menn!“ – og kem því að í bókinni. Það smitast líka svolítið inn í hana að þegar ég flutti aftur heim fór ég að horfa á íslenska náttúru með nýjum augum og fann sterkt hversu dýrmæt hún er og hversu þakklát við eigum að vera fyrir hana.“





Bláklukkan prýðir eina síðuna í bókinni hennar Eddu Valborgar.
Það kemur í ljós við frekara spjall við Eddu að hún flutti heim haustið 2007, kortéri fyrir hrun. Var hún ekkert að hugsa um að bakka út aftur, þegar allt fór hér á hliðina?

„Ég er mikið á faraldsfæti því börnin mín og barnabörnin eru úti. En ég ákvað að búa mér til einhverja umgjörð hér og er sjálfstætt starfandi grafískur hönnuður með eigin hönnunarstofu. Ég hafði flutt út til Bandaríkjanna 1980 svo það voru ekki margir sem mundu eftir mér en samt hef ég náð að hafa nóg að gera.

Hef til dæmis unnið mikið með Vatnajökulsþjóðgarði, því ég átti vinningstillögu að merki hans þegar samkeppni var haldin um það við stofnun þjóðgarðsins 2008 og hef síðan unnið skilti, merki og kort fyrir hann. Svo hef ég verið með hönnunarverkefni hér og þar á ólíkum sviðum. Mér finnst það mjög gaman enda er þetta er það eina sem ég kann!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.