Varasjóðir helstu olíuríkja heimsins hafa minnkað um 315 milljarða dollara eftir verðfall á olíu undanfarna mánuði. Upphæðin nemur tæplega 39,2 billjónum íslenskra króna en það er rúmlega átjánföld landsframleiðsla Íslands. Upphæðin samsvarar um fimmtungshluta af varasjóðum ríkjanna. Fjallað er um málið á vef Bloomberg.
Sádi-Arabía á langstærsta hluta eyðslunnar eða um 138 milljarða dollara. Næst á eftir þeim fylgja Rússar með um 60 milljarða dollara. Næstu ríki á eftir eru Alsír, Líbýa og Nígería. Eina OPEC-ríkið sem býr við þann veruleik að varasjóðir þess hafa stækkað er Sameinuðu arabísku furstadæmin.
Fulltrúar OPEC-ríkjanna auk fulltrúa frá Bandaríkjunum, Rússlandi, Kína og Kanada munu hittast á fundi í Doha, höfuðborg Katar, sem hefst á sunnudag. Þar verða til umræðu aðgerðir til að stemma stigu við frekari verðlækkunum.
Niðurstöðu fundarins beðið
„Olíuríki heimsins verða að sameinast um að koma jafnvægi á markaðinn á ný. Afleiðingin verður sú að efnahagskerfi heimsins verður betra. Staðan eins og hún er gagnast engum,“ sagði í bréfi Mohammed Al Sada, orkumálaráðherra Katar, þar sem hann bauð ríkjunum á fundinn.
Verðhrunið á olíu hefur verið gífurlegt undanfarin tvö ár. Um mitt ár 2014 stóð það í 114 dollurum á tunnuna en um ára mótið 2015 hafði það lækkað í rúmum fimmtíu dollurum á hráolíutunnuna. Verðið hækkaði í upphafi síðasta árs áður en það hrundi á ný í nóvember í fyrra. Um áramótin nú var það til að mynda 35 dollarar á tunnuna.
Verðlækkunina nú má rekja til þeirrar ákvörðunar OPEC-ríkjanna að taka slaginn við Bandaríkin um markaðshlutdeild í stað þess að draga úr framleiðslu til að sporna við offramboði á mörkuðum.
Komist ríki fundarins að samkomulagi má gera ráð fyrir því að heimsmarkaðsverð á olíu muni hækka. Árangurslaus fundur gæti hins vegar haft frekari verðlækkanir í för með sér.
