Íslenski boltinn

Andersen skoraði tvö annan leikinn í röð og KR komið í úrslit | Sjáðu mörkin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Þessi föstudagur er heldur betur dagur KR-inga því auk stórsigursins í körfuboltanum er fótboltalið félagsins einnig komið í úrslit Lengjubikarsins.

KR valtaði yfir 1. deildar lið Keflavíkur, 4-0, í Egilshöllinni í kvöld og tryggði sig inn í úrslitin þar sem það mætir annað hvort Val eða Víkingi. Þau eigast við á mánudagskvöldið í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Keflavík hélt aftur af KR-ingum lengi vel í fyrri hálfleik en það var svo danski framherjinn Morten Beck Andersen sem kom vesturbæjarliðinu í 1-0 með skallamarki á 43. mínútu.

Daninn skallaði boltann eiginlega aftur fyrir sig eftir mistök Beitis Ólafssonar í marki Keflavíkur. Hann kom út en náði ekki til boltans og skondinn skalli Andersens lá því í netinu.

Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Andersen annað skallamark en það var stórglæsilegt. Hann fékk sendingu inn á teiginn og stangaði boltann standandi í samskeytin fjær, 2-0.

Morten Beck Andersen virðist vera að hitna á hárréttum tíma, en eftir að skora aðeins eitt mark í fjórum leikjum í riðlakeppni Lengjubikarsins er hann nú búinn að skora fjögur mörk í tveimur leikjum í úrslitakeppninni.

KR komst í 3-0 á 72. mínútu þegar Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði beint úr aukaspyrnu á 72. mínútu. Spyrnan var góð en Beitir Ólafsson, sem átti erfiðan dag í marki Keflavíkur, hélt að boltinn væri að fara framhjá og horfði á eftir knettinum í netið.

Undir lokin skoraði miðvörðurinn og fyrirliðinn Indriði sigurðsson svo fjórða mark KR þegar hann fylgdi eftir skoti Óskars Arnar Haukssonar, 4-0. Sannfærandi sigur hjá KR-ingum í kvöld sem voru án nokkurra lykilmanna en tveir strákar fæddir 1998 og 1999 voru í byrjunarliði KR í kvöld.

Öll mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×