Erlent

Vígamenn komast í gegnum öryggisnet Evrópu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Þegar Ibrahim El Bakraoui sprengdi sig í loft upp á flugvellinum í Brussel, var það í minnst þriðja sinn sem hann fór óáreittur um flugvöll á undanförnum mánuðum. Tyrkir grunuðu hann um að vera hryðjuverkamaður. Hann var fyrrverandi fangi í Belgíu og eftirlýstur fyrir að hafa rofið skilorð. Þrátt fyrir það fékk hann að fljúga frá Istanbúl til Hollands og hverfa í Evrópu.

Ferðalag Bakraoui um Evrópu hafa vakið upp spurningar um það hvort að yfirvöld álfunnar viti um þá fimm þúsund sem grunaðir eru um að hafa ferðast til Sýrlands og Írak og barist þar með vígahópum. Þeir menn eru taldir vera mikil ógn gegn öryggi íbúa Evrópu.

Rannsókn AP fréttaveitunnar bendir til þess að stór göt sé að finna á öryggisneti Evrópu. Dæmi eru rakin um fleiri vígamenn sem hafa ferðast um heimsálfuna, að virðist alveg óáreittir af lögreglu.

Yfirvöld í Tyrklandi hafa vísað um 3,250 grunuðum hryðjuverkamönnum úr landi frá 2011 og þar eru ekki með taldir þeir sem hafa reynt að ferðast til Sýrlands og hafa verið stöðvaðir. Þegar kemur að Bakraoui segja Tyrkir að yfirvöld í Belgíu hafi ekki farið fram á að hann yrði framseldur þangað og því hafi honum verið frjálst að ferðast um Evrópu. Embættismenn í Tyrklandi segja að yfirvöld í Belgíu hafi verið vöruð við því að hann væri grunaður um að vera hryðjuverkamaður. Stjórnvöld í Belgíu segja að þær upplýsingar hafi ekki fylgt viðvöruninni.

Þá segir í grein AP að engin alþjóðalög fjalli um framsöl, einungis viðmið og starfsreglur. Þá er upplýsingaflæði á milli leyniþjónusta lítið sem ekkert. Þá sérstaklega þegar kemur að Tyrklandi.

Þó er unnið að nýjum reglum innan ESB og eru þær sagðar vera nærri því tilbúnar. Samkvæmt þeim verði nöfn íbúa ESB borin saman við gagnagrunna lögregluembætta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×