Ný skoðanakönnun Fréttablaðsins Stöðvar 2 og Vísis bendir engu að síður til þess að Katrín njóti langmests stuðnings allra til þess að gegna embættinu. Fjórðungur, eða 25 prósent, þeirra sem afstöðu tekur vill að Katrín verði næsti forseti Íslands. Spurt var út í afstöðu til níu manna sem ýmist hafa verið orðaðir við forsetaembættið eða hafa gefið kost á sér í það. Tólf prósent vilja Vigfús Bjarna Albertsson sem næsta forseta og ellefu prósent myndu vilja sjá Ólaf Ragnar Grímsson áfram í embætti. „Ég er afskaplega glaður með það og þakklátur,“ segir Vigfús Bjarni við Fréttablaðið.
Lista yfir aðra en fyrrnefnda sem fengu atkvæði má sjá neðst í fréttinni.
Fimm prósent nefna Andra Snæ Magnússon, 4 prósent Davíð Oddsson, þrjú prósent nefna Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og 2 prósent nefna Össur Skarphéðinsson og Ólaf Jóhann Ólafsson. Eitt prósent nefnir svo Höllu Tómasdóttur. Athygli vekur svo að 37 prósent nefndu einhvern annan en þá níu sem nefndir voru í könnuninni.

Könnunin var gerð þannig að hringt var í 1.082 manns þar til náðist í 794 dagana 8. og 9. mars. Svarhlutfallið var því 73,4 prósent. Það er vert að taka fram að svarhlutfall í könnuninni er mjög lágt. Alls tóku 39 prósent sem spurðir voru afstöðu til spurningarinnar. Því er greinilegt að fólk er hvergi nærri búið að mynda sér skoðun á málinu. Spurt var: Hvern viltu sjá sem næsta forseta Íslands?
Til viðbótar við þá sem eru í listanum hér að ofan voru þessir nefndir:
- Ari Trausti Guðmundsson
- Ari Jósepsson
- Baldur Þórhallsson
- Bogi Jónsson
- Einar K. Guðfinsson
- Guðlaugur Þór Þórðarson
- Guðni Ágústsson
- Guðni Bergsson
- Hjálmar Jónsson
- Kristinn Sigmundsson
- Kristín Ingólfsdóttir
- Lilja Mósedóttir
- Linda Pétursdóttir
- Ólafur Darri Ólafsson
- Ómar Ragnarsson
- Óttar Proppé
- Ragna Árnadóttir
- Smári McCarthy
- Vigdís Finnbogadóttir
- Vilhjálmur Árnason
- Þórarinn Eldjárn