Lífið

Egill Skallagrímsson listaskáld en einnig illræmdur morðingi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Egill drepur Atleyjar-Bárð, kæran vin Noregskonungs: Hann lagði sverðinu á Bárði miðjum, svo að blóðrefillinn hljóp út um bakið; féll hann dauður niður.
Egill drepur Atleyjar-Bárð, kæran vin Noregskonungs: Hann lagði sverðinu á Bárði miðjum, svo að blóðrefillinn hljóp út um bakið; féll hann dauður niður. Teikning/Jakob Jóhannsson.

Saga Skallagríms Kveldúlfssonar, landnámsmanns Borgarfjarðar, og sonar hans, Egils Skallagrímssonar, eins og hún birtist í Egilssögu, er einhver magnaðasta frásögn Íslendingasagna. Þeir feðgar eru viðfangsefni Landnemanna á Stöð 2 í kvöld, mánudagskvöld 7. mars, klukkan 20.15. 



„Egill er samkvæmt sögunni alger fjöldamorðingi,“ segir Kjartan Ragnarsson í þættinum en bendir jafnframt á að Egill hafi um leið verið eitt mesta skáld síns tíma og tilfinningavera. Kjartan og kona hans, Sigríður Margrét Guðmundsdóttir, segja frá Landnámssetri Íslands í Borgarnesi, sem þau stofnuðu fyrir áratug, en þar er bæði landnáminu og Egilssögu gerð skil. 

Egill fremur eitt mesta illvirkið þegar hann rænir bændafjölskyldur í Kúrlandi, lokar þær svo inni, kveikir í skálanum og drepur svo alla í dyragættinni sem reyna að sleppa út úr eldinum.Teikning/Jakob Jóhannsson.

„Við trúum því að þetta hafi allt saman gerst,“ segir Sigríður Margrét, en viðurkennir þó að kannski hafi eitthvað verið fært í stílinn í Egilssögu. 



Egill var siðblindur fjöldamorðingi og geðklofi sem fann leiðina til hjarta síns, segir Benedikt Erlingsson leikari, sem sýnt hefur einleikinn Mr. Skallagrimsson 400 sinnum í Landnámssetrinu.

Egill og félagar sleppa úr haldi Kúra: Leysti hann hendur sínar með tönnum, en er hendur hans voru lausar, leysti hann bönd af fótum sér; síðan leysti hann félaga sína.Teikning/Jakob Jóhannsson.

Í þættinum eru raktar ástæður þess að feðgarnir Kveldúlfur og Skallagrímur flúðu Noreg. Sögusvið Egilssögu er skoðað, velt upp sannleiksgildi hennar og hvort mögnuð lýsing á bardögum og ránsferðum Egils sé raunsönn. 



Rætt er við Torfa Tulinius, prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Háskóla Íslands, um gildi Egilssögu sem bókmenntaverks. Hann segir Egilssögu úthugsað listaverk en dregur jafnframt í efa gildi hennar sem sagnfræði. Torfi ritaði bókina Skáldið í skriftinni, um Snorra Sturluson og Egilssögu, en margir fræðimenn hallast að því að Snorri sé höfundur Egilssögu. 



Hér fyrir neðan má sjá brot úr þættinum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×