Skoðun

Heil­brigðis­þjónusta til fram­tíðar

Oddur Steinarsson skrifar

Þann 13. janúar síðastliðinn kom út rúmlega 800 síðna skýrsla í Svíþjóð um hvernig móta ætti heilbrigðisþjónustu til framtíðar. Þessi skýrsla var unnin af stórum þverfaglegum hópi fyrir sænsk stjórnvöld og var tvö ár í vinnslu. Meginniðurstaðan er sú að enn frekari efling heilsugæslu er mikilvægasta aðgerðin í því að gera heilbrigðiskerfið skilvirkara. Að auka samfellu, gera skjólstæðingana virkari þátttakendur í sinni meðferð og innleiðing tækninýjunga er það sem stefna þarf að.



Svíar hafa verið að efla heilsugæslu undanfarin ár, en betur má ef duga skal. Þeir hafa verið að fylgja eftir Dönum og Norðmönnum í því að byggja upp öflugri heilsugæslu. Á Íslandi hefur því miður ríkt stöðnun í málefnum heilsugæslunnar allt of lengi. Tíu ár eru síðan síðast var opnuð ný heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu og á sama tíma hefur íbúum fjölgað um yfir 20 þúsund á svæðinu. Það er því mikið fagnaðarefni að ráðgert sé að opna þrjár nýjar heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári. Samhliða þessu er komið á gæða- og greiðslukerfi að sænskri fyrirmynd, þar sem markmiðið er að sinna þeim betur sem mest þurfa á þjónustunni að halda.



Heilsugæslan vinnur mjög mikilvægt starf í dag, svo sem í ungbarnavernd og bólusetningum, mæðravernd, heilsuvernd og heimilislækningum. Með breyttu samfélagi, svo sem hærra hlutfalli eldri borgara þar sem fólk lifir lengur og oftar en ekki með einn eða fleiri undirliggjandi sjúkdóma, er þörfin fyrir öfluga samræmda heilsugæslu á landsvísu mjög mikil. Því er mikilvægt að heilsugæslan verði efld með aukinni áherslu á samvinnu og aðkomu fleiri fagstétta til viðbótar þeim sem starfa í dag innan heilsugæslunnar. Þannig er hægt að efla til dæmis sykursýkismeðferð, meðferð við lungnasjúkdómum, þunglyndi, kvíða, lífsstílsráðgjöf og fleira. Jafnframt að fjölbreytni verði aukin í rekstri, að skjólstæðingar okkar geti valið hvert þeir sæki þjónustu og fjármagnið fylgi þeim, enda eru þeir skattborgararnir sem borga þjónustuna. Með þessu er hægt að byggja upp öfluga heilsugæslu á landsvísu og ná árangri í forvörnum og snemmgreiningum.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×