Leikurinn var æsispennandi en tvær framlengingar þurfti til að knýja fram úrslit. Lovísa Thompson skoraði sigurmark Gróttu sem mætir Stjörnunni í bikarúrslitum klukkan 13:30 á morgun.
Grótta byrjaði leikinn betur og komst í 3-1 en Haukar svöruðu með fimm mörkum í röð og voru með frumkvæðið allt þar til á lokamínútunum.
Seltirningar breyttu um vörn um miðjan seinni hálfleik og tóku tvo leikmenn Hauka úr umferð. Það sló Hafnfirðinga út af laginu en þeir leiddu samt, 19-22, þegar 11 mínútur voru til leiksloka. Þá tók Íris hins vegar til sinna ráða og hreinlega lokaði markinu.
Íris varði „aðeins“ 35,3% af þeim 34 skotum sem hún fékk á sig fyrstu 49 mínútur leiksins en tók hins vegar 18 af þeim 25 skotum sem hún fékk á sig það sem eftir lifði leiks. Það gerir 72% hlutfallsmarkvörslu sem er einstök tölfræði.
Á þessum tíma varði Íris hvorki fleiri né færri en fjögur vítaköst af þeim sex hún fékk á sig, auk þess sem síðasta vítakast Hauka hafnaði í stönginni.
Íris tók einnig fjölmörg dauðafæri á mikilvægum augnablikum eins og þegar hún varði frá Mariu Ines De Silve Pereira í hraðaupphlaupi í stöðunni 28-28 þegar mínúta var eftir af fyrri framlengingunni. Hún tryggði svo Gróttu aðra framlengingu þegar hún varði vítakast Ramune Pekarskyte þegar 16 sekúndur voru eftir af fyrri framlengingunni.
Í seinni framlengingunni skellti Íris svo endanlega í lás og varði þá átta af þeim níu skotum sem hún fékk á sig (88,9%). Maria var sú eina sem fann leiðina framhjá þessum frábæra markverði í seinni framlengingunni en það mark kom úr víti.
Ótrúlegur lokakafli Írisar Bjarkar gegn Haukum (frá því í stöðunni 19-22 þegar 11 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma):
18 skot varin af 25 (72%)
6 langskot
4 víti
4 úr horni
3 af línu
1 hraðaupphlaup
Markvarsla Írisar Bjarkar í öllum leiknum:
30/4 skot varin af 59/9 (51%)
