Viðskipti innlent

Þreföld kortavelta í flugi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ein skýring mikillar hækkunar er að í janúar opnaði WOW fyrir bókanir til og frá San Francisco og Los Angeles.
Ein skýring mikillar hækkunar er að í janúar opnaði WOW fyrir bókanir til og frá San Francisco og Los Angeles. Vísir/Vilhelm
Í janúar nam erlend kortavelta hér á landi 11,6 milljörðum króna sem er 61,5 prósent hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra.

Erlendir aðilar greiddu hæstar upphæðir með kortum sínum fyrir farþegaflutninga með flugi. Kortavelta í þeim flokki nam samtals tæpum 3,2 milljörðum króna í janúar sem er þreföldun frá sama mánuði í fyrra.

Fram kemur í tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar að ein skýring mikillar hækkunar sé að í janúar opnaði WOW fyrir bókanir til og frá San Francisco og Los Angeles en sú velta kemur fram hjá innlendum færsluhirðum.

Við túlkun talnanna ber einnig að hafa í huga að greiðslur vegna flugbókana, líkt og greiðslur fyrir bókanir hótelherbergja og aðra ferðaþjónustu, er jafnan gerðar nokkru áður en ferðin er farin. Aukin velta í þessum flokki gæti því verið merki um fjölgun ferðamanna síðar á árinu, hvort sem er til landsins eða hjá innlendum flugfélögum.

Fyrir utan farþegaflutninga með flugi var mesta aukningin á heildarveltu í flokknum ýmis ferðaþjónusta, alls 764 milljónir króna eða 61 prósent aukning frá janúar í fyrra. Sá flokkur nær yfir ýmsar tegundir ferðaskipuleggjenda og sérsniðnar ferðir. Næst mest var aukningin í gistiþjónustu, 537 milljónir króna eða 41 prósent og þar næst í veitingaþjónustu, 249 milljónir eða 36 prósent frá fyrra ári. Ekki var samdráttur á heildarveltu neins flokks á milli ára nema úttektum á reiðufé úr hraðbönkum en lækkuðu þær um 21 milljón króna frá janúar 2015.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×