Tímaspursmál er hvenær verkfall flugvirkja hjá Samgöngustofu mun hafa áhrif á áætlunarflug flugfélagsins WOW air, að sögn Svanhvítar Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúa félagsins. Verkfall flugvirkja hefur nú staðið yfir í að verða tvær vikur.
„Verkfallið getur haft grafalvarleg áhrif á starfsemi WOW air og framtíðarplön félagsins árið 2016. Á þessu ári þarf WOW air að skrá fimm nýjar vélar og eru þrjár í raun komnar á tímapressu þar sem margir nýir áfangastaðir munu bætast við áætlunina núna í vor,“ segir Svanhvít.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir verkfallið ekki hafa haft áhrif enn sem komið er. „Þetta hefur ekki haft nein áhrif á okkur og ekki ljóst hver þau yrðu. Það er ekkert sem er fyrirséð, engar truflanir eða röskun á flugi. En auðvitað er vinna þessara manna nauðsynleg til þess að halda eðlilegri flugstarfsemi gangandi,“ segir hann.
Flugvirkjar Samgöngustofu, sem eru sex talsins, lögðu niður störf 11. janúar síðastliðinn. Um er að ræða ótímabundið verkfall en þeir hafa verið samningslausir í tæp 27 ár. Birkir Halldórsson, formaður samninganefndar Flugvirkjafélags Íslands, sagði í samtali við Vísi í gær lítið hafa miðað í samningsátt. Síðasti fundur í deilunni var á þriðjudag og ekki hefur verið boðað til nýs fundar.
Á vef Samgöngustofu segir að verkfallið hafi ekki áhrif á starfsemi íslenskra flugrekenda innanlands eða utan, en dragist það á langinn geti það skert afmarkaða þjónustu stofnunarinnar við þá. Að öðru leyti sé öll starfsemi og afgreiðsla Samgöngustofu með venjubundnum hætti.
Verkfall flugvirkja geti haft alvarleg áhrif á starfsemi og framtíðarplön WOW

Tengdar fréttir

Flugvirkjar farnir í verkfall
Ótímabundið verkfall flugvirkja sem starfa sem eftirlitsmenn hjá Samgöngustofu hófst klukkan sex í morgun.

Telur verkfall flugvirkja eiga eftir að standa yfir í nokkurn tíma
Lítið miðar í samningsátt i kjaradeilu flugvirkja sem starfa hjá Samgöngustofu.