Norðmenn gerðu sér lítið fyrir og lögðu Pólverja að velli, 28-30, í milliriðli 1 á EM í Póllandi í kvöld.
Noregur byrjaði mótið á því að tapa fyrir Íslandi en síðan þá hefur liðið unnið þrjá leiki í röð og á góða möguleika á að komast í undanúrslit.
Norðmenn eru með sex stig í 2. sæti milliriðils 1 en þeir mæta Makedóníu í næsta leik sínum á mánudaginn.
Pólverjar eru hins vegar í 4. sæti riðilsins með fjögur stig en þeir eiga leik gegn Hvít-Rússum á mánudaginn. Pólland hafði unnið alla þrjá leiki sína á EM fram að leiknum í kvöld.
Pólverjar byrjuðu leikinn betur og Michal Jurecki kom þeim í 6-3 eftir 10 mínútna leik. Norðmenn voru þó fljótir að ná áttum, jöfnuðu og komust yfir og þeir leiddu með einu marki í hálfleik, 15-16.
Norðmenn byrjuðu seinni hálfleikinn betur og Magnus Jondal kom þeim í fyrsta sinn þremur mörkum yfir, 16-19, eftir þriggja mínútna leik.
Noregur hafði 2-3 marka forskot næstu mínúturnar en stórskyttan Karol Bielecki minnkaði muninn í eitt mark, 23-24, þegar 10 mínútur voru eftir.
Lokamínúturnar voru spennandi en Norðmenn héldu haus og unnu að lokum tveggja marka sigur, 28-30.
Espen Lie Hansen fór mikinn í liði Noregs og skoraði átta mörk. Kent Robin Tonnensen átti einnig skínandi leik og skoraði sex mörk, en þrjú þeirra komu á síðustu 10 mínútum leiksins. Pólsku markverðirnir réðu ekkert við skyttur Norðmanna en þeir vörðu aðeins fimm skot í leiknum (14%).
Bielecki og Jurecki báru af í liði Pólverja en þeir skoruðu samtals 19 af 28 mörkum liðsins í leiknum (Bielecki 10 og Jurecki 9).
Norðmenn fyrstir til að leggja Pólverja

Tengdar fréttir

Omeyer frábær þegar Frakkar jörðuðu Króata
Frakkar eru komnir með sex stig í milliriðli 1 á EM í Póllandi eftir stórsigur á Króatíu í dag. Lokatölur 32-24, Frakklandi í vil.