Skoðun

ÞSSÍ var Íslandi til sóma

Össur Skarphéðinsson skrifar
Um áramótin var Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) formlega lögð niður. Það kom mér stundum á óvart á fyrstu árum mínum sem utanríkisráðherra að evrópskir kollegar lögðu lykkju á leið sína til að hrósa ÞSSÍ. Sama upplifði ég síðar á fundum með sendiherrum Evrópuþjóða í Malaví. ÞSSÍ var hrósað fyrir nýmæli og frumkvæði, og fyrir að fara vel með fé. Hún áorkaði sannarlega miklu miðað við fjármagnið sem stofnunin hafði til umráða.

Mæður og börn

Í Malaví innti ég evrópsku sendiherrana sérstaklega eftir hvað þeir teldu lykilinn að velgengni ÞSSÍ. Þeir töldu mikilvægast að ÞSSÍ kappkostaði að veita heimamönnum sem mesta hlutdeild í ákvörðunum um hvaða verkefni ætti að ráðast í, og jafnframt að rekstri þeirra. Auk þess nefndu þeir sérstaklega áhersluna á konur og sögðu aðdáunarvert hvernig ÞSSÍ einbeitti sér að mæðrum og börnum, heilsugæslu og menntun. Þessar áherslur, sögðu þaulvanir sendimenn Evrópu í Afríku, skildu eftir varanlegan ávinning.

Þetta var kjarninn í starfsemi ÞSSÍ. Hún lagði áherslu á þátttöku heimamanna, vann með grasrótinni, og veitti íslenskum þróunarpeningum í skynsamleg verkefni sem skiluðu árangri strax, eins og öflun hreins vatns, sem útrýmdi kóleru á starfssvæðunum í Malaví. Hún studdi við menntun barna, kenndi fólki að lesa, og vann kraftaverk í að koma á varanlegri heilsugæslu. Spítalinn, sem Íslendingar reistu við Monkey Bay og gáfu heimamönnum, er talandi tákn þess. Fæðingardeildirnar í Monguchi verða um langa framtíð óbrotgjarn minnisvarði um vel útfærða og skynsamlega stefnu í þróunarsamvinnu.

Sjálfum er mér ógleymanleg heimsóknin í örlitla fæðingardeild í rjóðri inni í miðjum skógi, þar sem smávaxin forstöðukona með drifhvítan kappa lýsti fyrir mér þeirri gjörbreytingu sem hafði orðið á högum kvenna á svæðinu eftir að deildin tók til starfa. Tæplega 20 þúsund börn höfðu þá komið farsællega í heiminn með íslenskri aðstoð. Hún sagði að konur kæmu tugi kílómetra til að fæða á þessum stöðum. Af tæplega fimm ára sögulegum ferli í utanríkisráðuneytinu standa mér ferskust í minni orð sem hún lét falla: „Börnin deyja ekki hjá okkur.“

Ógrunduð og óskiljanleg ákvörðun

Á sama tíma og skýrslur sýna að Ísland er orðið næstríkasta land í Evrópu er það Íslandi til vansæmdar að stjórnvöld hafa svarað vaxandi ríkidæmi með því að draga beinlínis úr fjárveitingum frá því sem Alþingi samþykkti einróma 2011. Það breytir þó engu um að ÞSSÍ reisti íslenska flaggið með glæsilegum hætti. Í því ljósi er sorglegt að stjórnvöld hafi hrapað að þeirri ákvörðun, án sjáanlegra raka, að leggja stofnunina niður. Um langa hríð verður það skólabókardæmi um ógrundaða og órökstudda ákvörðun.

Á þessum tímamótum er óhjákvæmilegt að undirstrika að faglegir sérfræðingar sem leitað var til lögðust gegn niðurlagningu ÞSSÍ. Félagsvísindasvið HÍ, þar sem mest fræðilegt atgervi er að finna um þróunarsamvinnu, taldi hana „bráðræði“ og lagði til að stofnunin yrði fremur efld. Í langri umræðu sem spannaði tvö þing voru að lokum hraktar allar fullyrðingar sem upphaflega voru settar fram sem rök fyrir að leggja ÞSSÍ niður, s.s. „tvíverknaður“, skortur á „hagræðingu“ og að ÞSSÍ gengi ekki „í takt við utanríkisstefnuna“. Sjálft fjármálaráðuneytið lýsti skriflega yfir að ekki myndi sparast króna með aðgerðinni.

Samþykkt frumvarpsins var því miður dæmi um hvernig framkvæmdarvaldið er að snúa stjórnskipaninni á hvolf með því að taka yfir löggjafarvaldið og beitir flokksræði til að þrýsta í gegnum Alþingi ákvörðunum sem í reynd njóta þar ekki raunverulegs stuðnings.

Fyrirmyndarstofnun

Það sem aldrei deyr þó er góður orðstír. Það verður aldrei tekið frá ÞSSÍ, og starfsmönnum hennar, að þau hlutu fram á síðasta dag óskorað lof heima og erlendis fyrir góðan rekstur, nýmæli og frumkvæði í starfi. ÞSSÍ má óhikað telja til fyrirmyndarstofnana í íslenskri stjórnsýslu. Þegar horft er yfir glæsilegan feril hennar er óhætt að kveðja hana og starfsmenn hennar með því að segja:

Þið voruð Íslandi til sóma!




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×