Erlent

Trump sver af sér túrummæli

Þórgnýr Albertsson skrifar
Samkvæmt könnun ABC þótti Trump hafa betur í kappræðum þrátt fyrir umdeild ummæli.
Samkvæmt könnun ABC þótti Trump hafa betur í kappræðum þrátt fyrir umdeild ummæli. FRéttablaðið/AFP
Fast var skotið á Donald Trump, sem sækist eftir útnefningu Repúblikanaflokks Bandaríkjanna til forsetaframboðs, eftir að hann sagði blóð flæða hvaðan sem er út úr Megyn Kelly, sem stýrði kappræðum forsetaframbjóðandaefna repúblikana á fimmtudag.

Carly Fiorina, meðframbjóðandi Trumps, sagði meðal annars að ummælin væru óafsakanleg, óviðeigandi og móðgandi. Hún sagði enn fremur frá reynslu sinni af karlmönnum sem héldu hana óhæfa til að taka ákvarðanir af því að hún gæti verið á túr. Fiorina var áður forstjóri Hewlett Packard.

Trump er ósammála túlkun Fiorina og annarra sem brugðust við. „Ég ætlaði að segja að það blæddi úr nefinu hennar eða eyrum. Það er algengt orðasamband sem er notað um reiði. Aðeins afbrigðilegt fólk myndi segja að ég væri að tala um blæðingar,“ segir Trump. „Mér þykir vænt um konur og ég vil hjálpa þeim.“

„Ég á frábært samband við margar konur í viðskiptaheiminum. Þær eru frábærir stjórnendur, algjörir morðingjar. Þær eru ótrúlegar,“ segir Trump í samtali við bandarísku sjónvarpsstöðina ABC. 


Tengdar fréttir

Diguryrðin yfirgnæfðu

Donald Trump tryggði sér mestu athyglina í sjónvarpskappræðum tíu repúblikana, sem allir keppa að því að verða forsetaefni flokks síns á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×