Innlent

Þetta eru svakalegar aðgerðir

ingibjörg bára sveinsdóttir skrifar
Kjúklingabóndi Jón Magnús Jónsson, eigandi Ísfugls.
Kjúklingabóndi Jón Magnús Jónsson, eigandi Ísfugls. fréttablaðið/gva
„Þetta eru svakalegar aðgerðir. Venjulegt fólk áttar sig ekki á þessu. Það er tekin af okkur eina innkoman. Þetta er eins og hjá manni sem missir vinnuna og tekjurnar, en verður samt að vinna. Ef við förum ekki að selja blasir við gjaldþrot.“

Þetta segir Jón Magnús Jónsson, eigandi Ísfugls, sem var eini kjúklingaframleiðandinn sem setti ekki ferskan kjúkling á markað um helgina.

„Ég ákvað að bíða og rjúfa ekki samkomulagið við dýralækna í þeirri von að enn væri til friðsamleg lausn. Við höfum alltaf fengið undanþágu til að slátra þangað til síðastliðinn föstudag. Ég tek ekki afstöðu í verkfallsdeilunni en þetta er grafalvarlegt mál.“

Jón hefur slátrað um fimm til sjö þúsundum fugla á dag sem hafa verið frystir samkvæmt samkomulagi við dýralækna. „Ég hef verið að selja örlítið af eldri lager sem var til. Við erum hins vegar að vonast til að fá að selja það sem við höfum verið að frysta undanfarnar vikur. Við þurfum rekstrarfé. Það þarf að kaupa fóður og gera upp við bændur.“

Beiðni Ísfugls um slátrun var frestað í gærmorgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×