Tíska og hönnun

Peysurnar eins og ljóð

Sólveig Gísladóttir skrifar
Peysan Rigning er ljóð Bergrósar Kjartansdóttur sem hún samdi í lopa undir áhrifum frá ljóðinu „Mér finnst rigningin góð“.
Peysan Rigning er ljóð Bergrósar Kjartansdóttur sem hún samdi í lopa undir áhrifum frá ljóðinu „Mér finnst rigningin góð“.
"Þegar ég var barn bjó ég á Ísafirði í gömlu reisulegu húsi við Hafnarstræti sem var alltaf kallað græna húsið. Á sama tíma bjó Vilborg Halldórsdóttir þar og samdi ljóðið „Mér finnst rigningin góð“ sem síðar var gert ódauðlegt af hljómsveitinni Síðan skein sól.

Þetta fannst mér alltaf afar merkilegt og hef sagt þessa sögu oft í gegnum tíðina,“ segir Bergrós Kjartansdóttir sem ákvað einn daginn að yrkja sitt eigið ljóð um rigninguna en þó ekki með pennann að vopni heldur prjónana. Úr varð peysan Rigning.

Bergrós er afkastamikill prjónahönnuður og vann um tíma sem aðalhönnuður hjá ÍSTEX við blaðið LOPA. Í dag starfar hún sjálfstætt og rekur vefverslunina Tíbrá þar sem hún selur uppskriftir sínar.

Logn
„Langflest sem ég bý til hefur með einhverjar sögur að gera,“ segir Bergrós sem nýtir ljóð, frásagnir, tilfinningar sem hún hefur upplifað og minningar úr æsku í verk sín. „Ég hugsa peysurnar mínar oft sem ljóð eða sögur og yrki þær beint í lopann. Líkt og með ljóðin er maður að færa hugmynd úr höfðinu niður í annað efni sem næsti maður skilur,“ segir Bergrós sem kemur úr ljóðelskri ætt. 

Þegar Bergrós sest niður og prjónar hugmyndir sínar í lopann þarf hún sjaldan að gera margar tilraunir. „Hugmyndir mínar eru tilbúnar í höfðinu á mér áður en þær fara í gegnum hendurnar og prjónana,“ segir Bergrós, sem gengur alltaf með margar hugmyndir í maganum. „Þegar ég kem þeim loks á prjónana þá er ég búin að móta þær í huganum mjög lengi.“

Bergrós Kjartansdóttir
Bergrós segir algengt að eitt verk leiði af sér annað. Þannig fæddist peysan Logn í kjölfar Rigningar. „Lognið hefur alltaf haft djúpstæð og öflug áhrif á mig og ég læt lokkast af logni eins og mýfluga af mykjuskán. Ég ræð mér ekki fyrir kæti þegar lognið leggst yfir. Því lognið er ekki bara í loftinu svífandi í kringum okkur, það er í sjónum líka, ögrandi og seiðandi sést það spegla sig í letilegum vatnsfletinum sem leyfir manni að trúa því að ævintýri sé að hefjast,“ segir Bergrós um þessa flík. 

Bergrós telur ekki mjög erfitt að prjóna peysurnar Rigningu og Logn.

„Þær eru mjög einfaldar fyrir utan mynstrið sem er pínu áskorun fyrir byrjendur,“ segir Bergrós, sem reynir þó alltaf að hafa prjónakonuna í huga þegar hún hannar mynstur. „En maður má ekki vantreysta prjónakonunni og það má alveg ögra. Ég heyrði til dæmis af gamalli konu sem prjónaði uppskrift eftir mig sem heitir Mósaík. Hún var 84 ára gömul og sagði að sér hefði fundist svo gaman að prjóna þessu peysu því hún hefði fundið það eftir á að heilasellunum hefði fjölgað,“ segir Bergrós glaðlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×