Tíska og hönnun

Mæna er frökk og litrík í ár

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Fimmtán grafískir hönnuðir útskrifast frá Listaháskóla Íslands í vor. Hópurinn gefur út tímaritið Mænu og býður í útgáfuhóf á miðvikudag.
Fimmtán grafískir hönnuðir útskrifast frá Listaháskóla Íslands í vor. Hópurinn gefur út tímaritið Mænu og býður í útgáfuhóf á miðvikudag. mynd/stefán
Úgáfuhóf Mænu, tímarits útskriftarnema í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands, verður haldið á miðvikudag 11. mars í SÍM-salnum, Hafnarstræti 16. Klukkan 18. Þetta er sjötta árið sem Mæna er gefin út en markmið Mænu er að þenja mörk grafískrar hönnunar með tilraunastarfsemi og tilraunakenndum samræðum.

„Mæna er fyrir alla sem hafa áhuga á grafískri hönnun, vilja kynna sér um hvað hún snýst og sjá hvað verið er að gera í Listaháskólanum. Þetta blað er alls ekki bara fyrir faglærða,“ segir Hrefna Lind Einarsdóttir, ein þeirra fimmtán útskriftarnema sem vinna blaðið á ár.

„Mæna er alltaf unnin út frá ákveðnu þema hvert ár og núna var þemað „kerfi“. Við sáum um útlit blaðsins en það samanstendur af greinum og ljósmyndum. Mæna er mjög frökk og litrík í ár,“ segir Hrefna. „Við gefum hana út í fimm hundruð eintökum sem gefin verða í útgáfupartíinu. Fyrstir koma, fyrstir fá en upplagið klárast yfirleitt alltaf,“ bætir hún við.

Greinarhöfundar eru meðal annarra Ármann Jakobsson, Ásta Jóhannsdóttir, Bryndís Björgvinsdóttir, Goddur, Hörður Lárusson og Thomas Pausz en ritstjórn er í höndum Birnu Geirfinnsdóttur, fagstjóra og lektors, og Bryndísar Björgvinsdóttur, fagstjóra fræðagreina.

Hrefna segir vinnuna við blaðið hafa gengið vel og hópurinn sé ánægður með afraksturinn.

„Við byrjuðum fyrir jól að vinna blaðið og skiptum með okkur verkum. Þetta var mikil tilraunastarfsemi, við vildum gera eitthvað nýtt og prófuðum okkur áfram. Það er lögð áhersla á fræðilega umræðu, líflegar hugmyndir og skoðanaskipti en í blaðinu er mikið af flottum greinum. Þetta hjálpaði okkur sjálfum að víkka sjóndeildarhringinn og að sjá hvað er hægt að gera hlutina á ólíkan hátt og skerpti sýn okkar á hönnunarferlið. Blaðið sýnir vel hvað grafísk hönnun er að gera,“ segir Hrefna Lind.

Hópurinn vann Mænu í samstarfi við prentsmiðjuna Odda og Gunnar Eggertsson hf. og voru fyrstu eintökin að koma úr prentun.

„Það er allt að verða tilbúið fyrir útgáfuhófið,“ segir Hrefna.

Hér má sjá myndband af Mænu í prentun. Á heimasíðunni mæna.is má skoða eldri útgáfur en sú nýjasta fer inn á vefinn við útgáfuna 11. mars. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×