Hún segir að mikill lúxus fylgi því að mæta á Óskarshátíðina. „Ætli þetta sé ekki pínulítið eins og að vera prinsessa yfir eina helgi,“ útskýrir hún Signý.
Hjónin, sem eru búsett á Nýja-Sjálandi, fljúga til Los Angeles um helgina og munu þau hafa það einstaklega gott á meðan þau gista þar. „Þau hjá kvikmyndafyrirtækinu 20th Century Fox bóka mig inn í lúxus svítu á hóteli í Los Angeles á stóra daginn. Þar er mér boðið í spa, hárgreiðslu, förðun, neglur og fleira,“ segir hún.
Ekki er það þar með upptalið en að auki fá þau demantsúr og vikuferð til Bali svo eitthvað sé nefnt.
Signý mætti ásamt eiginmanni sínum á BAFTA verðlaunahátíðina þann 8. febrúar og valdi hún að sjálfsögðu að vera klædd í íslenska hönnun á rauða dreglinum þar.

Eftir athöfnina mættu þau hjónin í Weinstein eftirpartýið þar sem allar stjörnurnar voru samankomnar. „Við hittum, spjölluðum og dönsuðum við fjölda frægra leikara. Það var líka einstaklega gaman að sjá Stephen Hawking sjálfan og fjölskylduna hans mæta í matinn eftir verðlaunaafhendinguna,“ segir Signý. Hún segist ekki vera búin að ákveða hvaða kjóll verði fyrir valinu fyrir Óskarinn en líklegt er að hún klæðist öðrum sérsaumuðum kjól frá Andreu.