Sport

Íslensku stelpurnar á undan í brekkuna á HM á skíðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helga María Vilhjálmsdóttir stóð sig best í stórsviginu á ÓL í Sotsjí í fyrra.
Helga María Vilhjálmsdóttir stóð sig best í stórsviginu á ÓL í Sotsjí í fyrra. Mynd/ÍSÍ
Íslensku keppendurnir hefja keppni á HM í alpagreinum á skíðum í dag en heimsmeistaramótið fer þessa dagana fram í Vail og Beaver Creek í Bandaríkjunum. Ísland átti ekki þátttakendur í bruni, risasvigi eða tvíkeppni á mótinu en er með í tveimur síðustu keppnisgreinunum, stórsvigi og svigi.

Það eru íslensku stelpurnar sem ríða á vaðið á mótinu en þær keppa í stórsviginu í dag. Fyrri ferð hefst klukkan 17.15 að íslenskum tíma og ef þær komast í seinni ferðina þá hefst hún klukkan 21.15.

Erla Ásgeirsdóttir, Freydís Halla Einarsdóttir, Helga María Vilhjálmsdóttir og María Guðmundsdóttir eru allar skráðar til leiks en allar nema María kepptu í þessari grein á HM í Austurríki fyrir tveimur árum.

Engin þeirra komst þó í seinni ferðina en Freydís Halla var aðeins þremur sætum frá því og Helga María var síðan aðeins tveimur sætum á eftir henni. Erla náði ekki að klára fyrri ferðina. Helga María varð í 46. sæti í stórsvigi á Ólympíuleikunum í Sotsjí í fyrra en Erla náði þá 52. sæti.

María Guðmundsdóttir tók fram skíðin að nýju í vetur og vann tvö FIS-mót í síðasta mánuði en þau voru bæði svigmót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×