Þeir klöppuðu hæðnislega fyrir dómurunum eftir leikinn og einn þeirra sagði að allir gætu séð að það hafi verið löngu búið að ákveða úrslit leiksins. Hann sagði líka að dómarar leiksins ættu aldrei að fá að dæma aftur.
Sjá einnig:Búið að ákveða úrslitin fyrir leik
„Ég get ekki fullyrt neitt um spillingu en ég get sagt mína skoðun. Mér fannst lykta af því að það væri verið að dæma viljandi með Katar,“ segir Kjartan Steinbach en hann var formaður dómaranefndar Alþjóðahandknattleikssambandsins, IHF, í ein átta ár og þekkir þessi mál vel sem og mennina sem standa í kringum dómaramálin.

Þegar komið var út í útsláttarkeppnina fannst flestum áhorfendum sem það hallaði verulega á andstæðinga Katar. Kjartan er sammála því.
„Ef við teljum frá 16-liða úrslitunum þá fannst mér Katarbúar hagnast á dómgæslunni í öllum þremur leikjum sínum á leið í úrslitin. Þetta lítur út eins og að þeim hafi verið hjálpað í úrslit,“ segir Kjartan en hann segir aftur á móti að Katarar hafi ekki fengið dómgæsluna áberandi með sér í úrslitaleiknum gegn Frökkum.
Katar vann þrjá leiki í útsláttarkeppninni til þess að komast í úrslit. Dómararnir í þeim leikjum voru frá Króatíu, Makedóníu og Serbíu.

Formaður dómaranefndar EHF, Dragan Nachevski, var þar að auki eftirlitsmaður á ritaraborðinu í leikjum Katar í átta liða og undanúrslitaleiknum. Hann er líka í dómaranefnd IHF og sonur hans var annar dómaranna í leiknum í 8-liða úrslitunum gegn Þýskalandi.
Sjá einnig:Hálfs árs bann fyrir mótmæli Pólverja
„Mér fannst það mjög undarlegt. Ég hefði aldrei samþykkt að hafa kallinn á borðinu þegar sonurinn er að dæma ef ég hefði enn verið að stýra málum þarna. Ég hefði enn síður samþykkt að hafa hann á borðinu í undanúrslitaleiknum og þá var hann í þeirri stöðu að ráða öllu á ritaraborðinu,“ segir Kjartan.
Þó svo ekki margir hafi þorað að tjá sig á HM þá býst Kjartan við því að menn fari að gera það núna.
„Það munu ýmsir menn opna sig. Menn sem vildu ekki opna munninn í Katar. Okkar þjálfarar í Katar með erlendu liðin fóru til að mynda mjög varlega í öllu sem þeir sögðu. Það var ekki fyrr en eftir undanúrslitaleikinn sem menn létu í sér heyra. Einn Pólverjinn var þá dæmdur í sex mánaða bann og það bann er byggt á skýrslu Dragans Nachevski. Það veit ég. Ég held að sú umræða sem fer í gang núna verði þess valdandi að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af dómgæslunni þegar upp er staðið.“