Innlent

Þröstur Leó maður ársins: „Bara hrærður yfir þessu“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Þröstur Leó Gunnarsson.
Þröstur Leó Gunnarsson. vísir/ernir
Hásetinn og leikarinn Þröstur Leó Gunnarsson var í dag valinn maður ársins af hlustendum og lesendum Bylgjunnar og Vísis. Þröstur bjargaði tveimur skipsfélögum sínum þegar báturinn Jón Hákon sökk út af Aðalvík. Sjálfur komst hann á kjöl og dró félaga sína upp úr sjónum.

Hann rifjaði atvikið upp í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í morgun. „Þetta er bæði sorg og gleði. Maður er náttúrulega bara þakklátur fyrir að hafa lifað þetta af. Þetta fór bara eins og þetta fór og maður lærir með tímanum að lifa með þessu,“ sagði Þröstur Leó.

Sjá einnig: Tekur ekki lífinu sem gefnu

Þröstur segir mörgum spurningum ósvarað sem mikilvægt sé að fá svör við. Ekki er vitað hvers vegna Jón Hákon sökk, né hvers vegna öryggisbúnaðurinn virkaði ekki.

„Þetta er eitthvað sem er líflínan manns. Þessi búnaður hefur bjargað ótal mörgum mannslífum en mér finnst við eigum að fá að vita þetta. Þetta fór eins og það fór og verður ekki aftur tekið, en þetta er eitthvað sem hægt er að skoða og læra af,“ sagði hann. „Af hverju leið þessi tími þangað til við fengum björgun. Maður vill ekki hugsa þá hugsun til enda ef hann hefði sokkið fyrr. Þá væri ég ábyggilega ekkert hér.“



Þá sagðist Þröstur afar þakklátur fyrir útnefninguna. „Ég er bara hrærður yfir þessu öllu saman. Ég er einhvern veginn ekki búinn að ná þessi. En ég þakka fyrir og öllum þeim sem kusu mig,“ sagði hann.

Hlusta má á viðtalið við Þröst í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×