
Til að skella ekki á svellbunka er því um að gera að fara gætilega. Heilbrigðisstarfsmenn hafa mælt með notkun hálkuvarna. Á vef sænska sjónvarpsins er haft eftir prófessor við sjúkraþjálfaradeild Háskólans í Umeå í Svíþjóð, Lillemor Lundin-Olsson, að nota eigi brodda þegar mikil hálka er.
Prófessorinn, sem hefur sérhæft sig í að fyrirbyggja slys vegna hrösunar, varar þó við notkun hálkuvarna sem einungis eru með brodda fremst undir fætinum. Að mati Lundin-Olsson er slík hálkuvörn beinlínis hættuleg. Hún kveðst ekki styðjast við neinar rannsóknir, heldur vitneskjuna um hvernig maður gengur yfirleitt en þá stígi maður fyrst niður með hælnum. Annað hvort eigi að nota brodda sem ná undir allan skósólann eða brodda undir hælnum.
Á norska túristavefnum „Where in Oslo“ eru leiðbeiningar fyrir ferðamenn og þá sem eru nýfluttir til Noregs um hvernig eigi að ganga í hálku. Mælt er með því að ganga eins og mörgæs. Þá gangi manni betur að fóta sig. Þetta snúist um að halda þyngdarpunkti líkamans yfir fremra fæti.

Að sögn prófessorsins er einnig skynsamlegt að taka styttri skref en venjulega, beygja hnén örlítið og stíga til jarðar með öllum fætinum.
Skyldi maður vera svo óheppinn að hrasa á maður að anda rólega en ekki rjúka strax á fætur eins og sumir gera þegar einhver hefur orðið vitni að fallinu. Þá er nefnilega hætta á að mann svimi með þeim afleiðingum að maður dettur aftur.