Viðskipti innlent

Krefur eigendur Eplis um 40 milljónir í skaðabætur

ingvar haraldsson skrifar
Friðjón Björgvin Gunnarsson hefur verið sakaður um kennitöluflakk og komast þannig hjá því að greiða aðflutningsgjöld.
Friðjón Björgvin Gunnarsson hefur verið sakaður um kennitöluflakk og komast þannig hjá því að greiða aðflutningsgjöld. vísir/vilhelm
Friðjón Björgvin Gunnarsson og Netverslun ehf. hafa stefnt Skakkaturni ehf., sem rekur Epli á Íslandi, og krefjast ríflega 40 milljóna króna í skaðabætur.

Félagið byggir skaðabótakröfu sína á lögbanni sem Skakkiturn hafði fengið lagt á hjá Sýslumanninum í Reykjavík og fengið staðfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, á innflutningi, dreifingu og sölu vefverslunarinnar Buy.is á vörum Apple. Lögbanninsúrskurðinum var snúið í Hæstarétti Íslands í mars 2014 vegna aðildarskorts Skakkaturns.

„Skakkiturn, sem er rekstrarfélag Eplis á Íslandi, fékk eitthvað mikilmennsku brjálæði og taldi sig vera Apple Incorporated í Silicon Valley í Kaliforníu í United States of America,“ segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Friðjóns og Netverslunar. 

„Ég held að það hafi ekki tekið Hæstarétt nema 30 sekúndur að átta sig á því að Skakkiturn er ekki Apple Incorporated og að sjálfsögðu sýknaði dómurinn umbjóðanda minn af öllum þessum kröfum og staðfestingu á lögbanninu og dæmdu Skakkaturn til þess að greiða umbjóðanda mínum málskostnað. En þá var staðan orðið sú að umbjóðandi minn hafði ekki getað flutt inn, selt eða dreift Apple vörum á Íslandi í um tvö ár,“ segir Vilhjálmur. Þetta hafi leitt til þess að félag Friðjóns varð gjaldþrota.

Friðjón hefur verið verið sakaður um að hafa ítrekað fært starfsemi Buy.is á milli kennitalna til þess að losna við að greiða aðflutningsgjöld. Í frétt DV frá því fyrir ári var greint frá því að 12 af 17 hlutafélögum sem Friðjón tengist hafi verið lýst gjaldþrota. Ekki náðist í forsvarsmenn Eplis við vinnslu fréttarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×