Lífið

Þjóðlög flutt á sérsmíðuð langspil og finnska hörpu

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Bára Grímsdóttir og Chris Foster skipa tvíeykið Funa.
Bára Grímsdóttir og Chris Foster skipa tvíeykið Funa. Vísir/GVA
Í kvöld mun tvíeykið Funi sem skipað er þeim Báru Grímsdóttur og Chris Foster spila í Mengi.

Á tónleikunum mun Funi flytja íslensk og ensk þjóðlög en þau Bára og Chris leika á langspil, gítar, kantele og íslenska fiðlu.

Bára segir þjóðlög alla tíð hafa verið sér hugleikin en hún ólst upp við söng og kveðskap.

„Hjá mér var það nú þannig að ég ólst upp við kveðskap hjá foreldrum mínum, fyrst í sveitinni og svo þegar við fluttum í bæinn, þá gengu þau í kvæðamannafélagið Iðunni, ég er nú formaður þar í dag,“ segir Bára glöð í bragði. „Svo var ég svo heppin þegar ég var í Barnamúsíkskólanum þegar ég var lítil að þar var ég með kennara sem kenndu okkur skemmtileg þjóðlög, þulur og svona ýmislegt. Þá kynntist ég annarri hlið íslensku þjóðlagatónlistarinnar.“

Bára og Chris hófu svo samstarf árið 2001 og segir Bára hann hafa verið viðloðandi þjóðlagatónlist frá barnæsku líkt og hún sjálf en Chris er alinn upp á Englandi og hefur haldið tónleika víðsvegar um heiminn síðastliðin 40 ár.

„Foreldrar hans voru mikið söngfólk og þau voru í enskum danshóp. Svo kynntist hann fólki sem sýndi þessu einnig áhuga og hann var ungur að reka folk club á Englandi. Einnig kynntist hann gömlu fólki sem söng á enskum pöbbum og lærði af þeim.“

Nafnið er vísun í lag sem var á fyrsta disk þeirra Báru og Chris og er kvæðið við lagið samið af ömmu Báru. „Hún amma mín, Petrína, samdi kvæði um Funa sem var einn af uppáhaldshestunum hans afa. Það var á fyrsta disknum okkar og við ákváðum að kalla dúóið Funa, þetta er svona þjált nafn.“

Síðan þau hófu að spila saman hafa þau haldið námskeið og komið fram á ýmsum hátíðum og tónleikum, bæði hér heima og einnig í útlöndum. „Við spilum oft erlendis og höfum gert það í gegnum árin. Við höfum verið svona mest á Bretlandseyjum og svo höfum við líka farið ansi oft til Bandaríkjanna, á austurströndina þá helst, og líka víða í Evrópu.“

Lögin útsetja þau Bára og Chris sjálf og segist Bára, sem er tónskáld, oft lengja íslensku lögin þar sem þau séu oft á tíðum stutt. Einnig voru lögin sem flutt eru oft sungin án nokkurs undirleiks. „Ég geri meira í kringum þau. Bý til millispil og lög við sum versin til þess að ramma þetta meira inn og gera þetta að heilsteyptari lögum,“ segir hún og heldur áfram: „Við erum líka að nota þessi gömlu íslensku hljóðfæri. Við erum með langspilið og höfum stundum verið með íslenska fiðlu og ég spila á litla finnska borðhörpu sem kallast kantele.“

Langspilin létu þau sérsmíða fyrir sig og munu þau í kvöld flytja lag sem Bára gerði við kvæði Jóns Steingrímssonar um móðuharðindin þar sem þau leika á tvö langspil. Einnig mun Bára kveða í kvöld, bæði hluta úr gamalli rímu auk nýlegs kvæðis eftir ungan hagyrðing. Á meðan á tónlistarflutningnum stendur verður myndheimi varpað á vegg Mengis og segir Bára það skýra texta og umfjöllunarefni tónlistarinnar.

Tónleikarnir hefjast í Mengi, Óðinsgötu 2, klukkan 21.00 í kvöld og er miðaverð 2.000 krónur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.