Örlygur Hnefill er mikill áhugamaður um geimferðir og starfrækir Könnunarsögusafnið á Húsavík sem er tileinkað sögu land- og geimkönnunar. Aðalrými safnsins er helgað geimferðum en Örlygur Hnefill segir að Air Berlin hafi aðallega verið að fjalla um ferð sem hann mun standa fyrir næsta sumar.
„Ég hef verið skrýtni gaurinn með tunglið á heilanum í mörg ár. Það hefur opnað alveg ótrúlega margar dyr fyrir mig,“ segir Örlygur en hann hefur fengið vísindamenn frá NASA og geimfara í heimsókn til sín. Síðastliðið sumar kom til að mynda Jim Reeves, yfirmaður Marsbílarannsókna NASA og brölluðu hann og Örlygur ýmislegt saman. Á næsta ári mun vísindamaður frá NASA koma til landsins og kenna ferðamönnum um jarðsögu pláneta sólkerfisins.
„Við gerðum það að gamni okkar að taka jarðsýnisprufu í Námaskarði og hann ætlar að bera það saman við jarðvegssýni af Mars sem Curiosity hefur safnað saman. Hann er á því að það ætti að senda þá geimfara sem fara til Mars til æfinga hingað á Íslandi.“

Myndatakan fór fram í Námaskarði sem er fjölsóttur ferðamannastaður. Á myndinni má sjá að Örlygur lítur út fyrir að vera einn í sínum eigin heimi en í raun og veru hafi verið fjölmargir ferðamenn á staðnum, það hafi þó ekki verið mikið mál að fá þá til þess að færa sig.
„Ferðamennirnir vildu allir standa við hliðina á ljósmyndaranum til þess að taka myndir af mér og svo vildu margir fá mynd af sér og mér í geimfarabúningnum.“ Örlygur segir að það hafi verið mjög sérstök upplifun að ganga um Námaskarðið í geimfarabúning en eitt hafi þó haldið honum niðri á jörðini.
„Manni fannst maður vera kominn í annan heim, ég get alveg viðurkennt það. Þyngdaraflið togaði reyndar alveg jafn mikið í mig og venjulega, meira ef eitthvað er þar sem búningurinn er frekar þungur.“
En hvernig vitum við að þetta sért þú á myndinni?
„Þetta er ég. Það er reyndar engin leið til þess að sannreyna það en þetta er ég.“