Ekki er ljóst hvort að bændur fái tjón vegna Skaftárhlaups bætt en lög um Viðlagatryggingu Íslands eiga ekki við um tjón sem hlýst af völdum hlaupa sem teljast til reglubundinna flóða úr ám, lækjum, sjó eða vötnum.
Það gæti því komið til kasta Bjargráðasjóðs sem er er í eigu ríkisins og Bændasamtaka Íslands en bændur þurfa að sækja um hjá sjóðnum vilji þeir fá tjón bætt. Sigurgeir B. Hreinsson, stjórnarformaður sjóðsins, segir ýmislegt benda til þess að bændur geti fengið eitthvað af tjóninu bætt í gegnum Bjargráðasjóð en þó sé of snemmt að segja til um það.
„Þetta er í raun stóráfallasjóður og það er talsverð eigin áhætta sem taka þarf tillit til. Hins vegar er það hlutverk sjóðsins að veita einstaklingum og félögum fjárhagsaðstoð verði þeir fyrir meiriháttar tjóni vegna nátttúruhamfara, en þetta er alfarið tengt landbúnaði. Skemmdir á ræktarlandi geta til að mynda fallið undir þetta sem og skemmdir á girðingum og rafmagnslínum,“ segir Sigurgeir og vísar í lög um Bjargráðasjóð.
„Þetta eru ekkert annað en náttúruhamfarir“
Hann bendir á að tjón vegna flóða hafi hingað til ekki verið eins stórfellt eins og nú virðist vera en ítrekar þó að meta þurfi tjónið þegar það verður hægt og sjá hvort það falli undir reglur sjóðsins.
Gísli Halldór Magnússon, bóndi á Ytri-Ásum, furðar sig á því að lög um viðlagatryggingu nái ekki til tjóns sem verður vegna jökulhlaups.
„Af hverju bætir viðlagatrygging þetta ekki eins og öskutjón? Þetta eru ekkert annað en náttúruhamfarir. Hér hefur orðið gífurlegt landbrot og eyðing auk þess sem það er mikill framburður sem fylgir þessu. Það mun valda sandfoki og leirmekki sem er kannski erfitt að koma í veg fyrir en engu að síður mætti bæta í fyrirhleðslur hérna. Ég skora bara á þingmenn Suðurkjördæmis að skoða þessi mál öll og vinna að þeim,“ segir Gísli.