Innlent

Félagsmenn í VM samþykkja kjarasamninga

Atli Ísleifsson skrifar
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM, telur niðurstöðuna sýna undirliggjandi óánægju með kjörin í vél- og málmtækninni.
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM, telur niðurstöðuna sýna undirliggjandi óánægju með kjörin í vél- og málmtækninni. Mynd/VM
Kjarasamningar Félags vélstjóra og málmtæknimanna.(VM) við Samtök atvinnulífsins var samþykktur í atkvæðagreiðslu sem lauk á hádegi. Samningurinn var undirritaður 3. september.

Í frétt á vef VM segir að um sé að ræða almennan kjarasamning VM vegna starfa félagsmanna á almennum vinnumarkaði í landi, það er málmiðnaðarmanna, netagerðarmanna og vélstjóra sem starfa í landi.

„Á kjörskrá voru 1802. Þar af tóku 531 þátt í kosningunni, eða 29,47%. Já sögðu 290, eða 54,61% þátttakenda. Nei sögðu 225, eða 42,37% þátttakenda og 16, eða 3%, sátu hjá. Samningurinn var því samþykktur með rúmlaga 54% atkvæða,“ segir í fréttinni.

Fram kemur í tilkynningu að Guðmundur Ragnarsson formaður VM telji niðurstöðuna sýna undirliggjandi óánægju með kjörin í vél- og málmtækninni. Miðað við stöðuna í samningagerð á vinnumarkaðnum í dag, telji hann jins vegar að niðurstaðan sé mjög góð fyrir VM.

„Við erum reynslunni ríkari eftir þessa samningatörn og þær aðferðir sem við völdum að fara. Við lentum í því að félög gerðu samning sem í raun tók frjálsan samningsrétt af okkur, þar sem reynt var að móta launastefnu sem engin sátt var um,“ segir Guðmundur og bætir við að hann segir forsendur samningsins vera brostnar. „Framundan er væntanlega að reyna að gera nýjan kjarasamning, áður en reynir á forsendubrestinn í febrúar á næsta ári.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×