Innlent

Stormurinn nær hámarki um hádegi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Búist er við snörpum vindhviðum í dag suðvestanlands.
Búist er við snörpum vindhviðum í dag suðvestanlands. vísir/vilhelm
Veðurstofan varar enn við stormi og miklum vatnavöxtum. Spáð er stormi við suðvesturströndina í dag sem mun ná hámarki á milli klukkan 11 og 13 með hviðum allt að 30-35 metrum á sekúndu undir Eyjafjöllum, á utanverðu Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli og á norðanverðu Snæfellsnesi.

Jafnframt er búist við vatnavöxtum á sunnan- og suðaustanverðu landinu á laugardag með aukinni hættu á skriðuföllum. Því ber að gæta varúðar við vatnsföll.

Þá má reikna með sandfoki norðaustanlands síðdegis í dag, til dæmis á Mývatns-og Möðrudalsöræfum, að því er kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Veðurhorfur á landinu í dag:

Gengur í suðaustan 13-23 metra á sekúndu, hvassast við suðvesturströndina. Víða talsverð rigning, jafnvel mikil úrkoma suðaustanlands seinni partinn. Dregur úr vindi með kvöldinu, fyrst á suðvestanverðu landinu, en áfram hvasst fyrir austan. Hiti 8 til 14 stig. Ákveðin sunnanátt og rigning eða skúrir á morgun, en úrkomulítið norðaustan til. Heldur kólnandi veður.

Sjá nánar á veðurvef Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×