Innlent

„Kæra Eygló - Sýrland kallar“ ratar í miðla í Bretlandi, Pakistan og Malasíu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sýrlenskur faðir heldur á syni sínum en þeir feðgar eru nýkomnir til Þýskalands eftir langt ferðalag.
Sýrlenskur faðir heldur á syni sínum en þeir feðgar eru nýkomnir til Þýskalands eftir langt ferðalag. vísir/getty
Framtak Bryndísar Björgvinsdóttur, Kæra Eygló Harðar – Sýrland kallar, hefur ekki aðeins vakið mikla athygli hér heima heldur er nú farið að fjalla um það í fjölmiðlum erlendis.

Gríðarlega mikill fjöldi Íslendinga hefur boðist til að aðstoða þá flóttamenn sem myndu koma hingað til lands og hefur fólk boðið fram alls konar aðstoð, allt frá félagslegum stuðningi yfir í heilu húsin. Alls eru yfir 12 þúsund manns búnir að merkja sig inn á viðburðinn Kæra Eygló Harðar en eitthvað færri hafa skrifað formleg innlegg þar sem þeir bjóða fram aðstoð.

Miðlar á borð við Guardian, Telegraph og Time hafa fjallað um málið á fréttavefjum sínum. Í umfjöllun Telegraph er meðal annars sagt frá Heklu Stefánsdóttur, einstæðri móður, sem skrifaði til Eyglóar að hún vildi gjarnan taka að sér barn á flótta. Þá er vitnað í orð Eyglóar Harðardóttur, félagsmálaráðherra, um að yfirvöld vilji gjarnan taka á móti fleiri flóttamönnum en þeim 50 sem nú þegar hefur verið ákveðið að taka á móti.

Þá er einng fjallað um málið á vef The Daily Star í Líbanon, á vef The Malaysian Insider í Malasíu og á vef Dunya News í Pakistan. Það er því deginum ljósara að góðvild Íslendinga í garð flóttamanna hefur vakið athygli víða um heim en Vísir greindi frá því í gær að meðal annars hafi orðið sprenging í skráningu sjálfboðaliða hjá Rauða krossinum um helgina í kjölfar þess að Íslendingar fóru að skrifa á Facebook til félagsmálaráðherra.

Vinna stendur nú yfir bæði hjá Rauða krossinum og velferðarráðuneytinu við að taka saman og reyna að ná utan um allan þann mikla fjölda sem boðið hefur fram aðstoð sína og greina hvers konar hjálp almenningur er viljugur til að veita.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×