Viðskipti innlent

Verðstríð á flugi til London

Sæunn Gísladóttir skrifar
Icelandair lækkaði verðið á ódýrustu fargjöldum til London á dögunum.
Icelandair lækkaði verðið á ódýrustu fargjöldum til London á dögunum. Vísir/Vilhelm Gunnarsson
Það stefnir í verðstríð hjá flugfélögum sem bjóða farmiða til London. Bæði Icelandair og WOW air lækkuðu ódýrustu framiðana sína þangað í vikunni. Aldrei hefur verið eins mikið framboð af flugi til borgarinnar og kann það að skýra verðsveiflurnar. Þessu greinir Túristi frá.

Farþegar á leið til London geta valið úr áætlunarferðum fjögurra flugfélaga, þegar mest lætur verða þangað farnar 56 ferðir í viku. Það er þreföldun í vikulegum ferðum samanborið við veturinn 2011 til 2012. Fargjöld virðast vera á niðurleið á laugardaginn sagði Túristi til að mynda frá því að British Airways biði nú farmiða á 5.055 krónur til London í vetur. Í kjölfarið bauð WOW air netklúbbstilboð þar sem flugmiðar til London voru seldir á 5.999 krónur sem er fjögur þúsund krónum minna en þeir kostuðu um helgina. Lítið er nú eftir af 5.055 króna fargjöldum British Airways.

Icelandair hóf einnig að lækka fargjöld sín í vikunni og lækkuðu ódýrustu miðarnir til London úr 17.455 krónum niður í 16.205 krónur samkvæmt athugun Túrista. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði í samtali við Túrista að lækkun á eldsneytisálagi á dögunum gæti hafa haft áhrif á þessi verð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×