Allar þjóðir sem áttu möguleika á að komast á Evrópumótið eftir leikina í mars þurftu að velja sér stað þar sem þær hyggðust búa og æfa á.
Íslenska liðið valdi sér að gera út frá Annecy, gríðarlega fallegum og sveitalegum bæ í suðaustur hluta Frakklands, um einum og hálfum tíma frá Lyon þar sem verður spilað á EM.
Annecy stendur við norðurhluta Annecy-vatns og er 22 kílómetrum frá Genf í Sviss.
Í lýsingu á bænum segir að hann hafi meira upp á að bjóða heldur en bara fallegt landslag. Þar í bæ eru tveir garðar og tvær heimsþekktar rannsóknarstofur. Þá hafa margir franskir íþróttamenn æft í Savoie-háskólanum sem er þar í bæ.
Nokkuð ljóst er að Lars og Heimir vildu hafa liðið í mikilli ró og kyrrð í skóglendinu í Annecy, en af myndunum hér að neðan að dæma má sjá að það mun fara vel um strákana okkar.






