Erlent

Bretland mun taka á móti 20.000 flóttamönnum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Myndin sýnir flóttamenn brjóta sér leið til Tyrklands.
Myndin sýnir flóttamenn brjóta sér leið til Tyrklands. vísir/afp
Bretland mun taka á móti allt að 20.000 flóttamönnum frá Sýrlandi næstu fimm árin. Þetta kom fram í máli David Cameron, forsætisráðherra Bretlands er hann ávarpaði neðri deild breska þingsins fyrir stundu. Cameron segir að það sé siðferðileg skylda Breta að taka á móti flóttamönnum. 

„Við verðum að nota huga okkar sem hjörtu til þess að hjálpa flóttamönnum. Við höfum öll orðið fyrir áhrifum af þeim átakanlegu myndum sem við höfum séð undanfarnar vikur. Bretland mun uppfylla siðferðilegar skyldur sínar og við munum beita heildstæðum aðgerðum til þess að takast á við þetta mál,“ sagði Cameron fyrr í dag.

Sveitarfélög í Bretlandi hafa boðist til þess að taka á móti flóttamönnum og mun breska ríkisstjórnin leggja til 100 milljónir punda til þess að aðstoða sýrlenska flóttamenn. Um helmingur þeirrar upphæðar verða nýttur til að aðstoða börn, einkum þau sem eru munaðarlaus.

Yfirlýsing Cameron kemur í kjölfar þess að Francois Hollande, forsætisráðherra Frakklands, tilkynnti í dag að Frakkar myndu taka á móti 24.000 flóttamönnum. Sagði hann er hann kynnti aðgerðaráætlun Frakka að ekki væri hægt að láta Þýskaland bera hita og þunga af móttöku flóttamanna í Evrópu.


Tengdar fréttir

Flóttamenn streyma frá Ungverjalandi til Þýskalands

Flóttamenn steymdu frá Ungverjalandi til Austurríkis og Þýskalands í gær. Enn bíða margir í Ungverjalandi eftir því að komast til Þýskalands. Höskuldur Kári Schram fréttamaður lýsir ástandinu á Keleti-lestarstöðinni í Búdapest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×