Erlent

Bandarísk yfirvöld vilja að Grikkir heimili ekki flug Rússa til Sýrlands

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
John Kerry hefur ekki áhuga á frekari þáttöku Rússa í Sýrlandi.
John Kerry hefur ekki áhuga á frekari þáttöku Rússa í Sýrlandi. Vísir/Getty
Bandarísk yfirvöld hafa óskað eftir því við grísk yfirvöld að þau heimili ekki rússneskum flugvélum að fljúga með vistir til Sýrlands í gegnum gríska lofthelgi. Gríska utanríkisráðuneytið hefur tekið beiðnina til athugunar en Bandaríkjamenn hafa áhyggjur af þáttöku Rússa í átökunum í Sýrlandi.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varaði um helgina utanríkisráðherra Rússlands, Sergey Lavrov, við því að reynist frásagnir af aukinni þáttöku Rússa í átökunum í Sýrlandi réttar, gæti það þýtt að átökin myndu magnast og að Rússar gætu þá staðið frammi fyrir því að standa gegn Bandaríkjunum og bandamönnum sem berjast gegn ISIS í Sýrlandi. Beiðnin til grískra yfirvalda er liður bandarískra yfirvalda í því að letja Rússa til að blanda sér í auknum mæli í átökin.

Lavrov svaraði því til að það væri alltof snemmt að tala um þáttöku Rússlands í hernaðaraðgerðum í Sýrlandi en staðfesti að Rússland hafi lengi sent hernaðarbúnað til sýrlenskra yfirvalda. Rússar, ásamt Íran, hafa stutt við bakið á Bashir al-Assad, forseta Sýrlands, í átökunum í Sýrlandi á meðan Bandaríkin hafa stutt stjórnarandstæðinga sem berjast gegn Assad. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×