Lífið

Leika leiðilegustu og skemmtilegustu lögin

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Leiðilegustu og skemmtilegustu lögin verða leikin í Hörpu um helgina.
Leiðilegustu og skemmtilegustu lögin verða leikin í Hörpu um helgina. Vísir/Pjetur
„Það er svo mikill húmor í hljómsveinni og við reynum að hafa gaman að þessu og brydda upp á einhverju nýju á hvejru ári,“ segir Jón Ólafsson hljómborðsleikari Nýdanskrar.

Hljómsveitin efnir til sinna árlegu hausttónleika í Hörpu um helgina. Nú verða tónleikarnir tveir talsins, á laugardaginn verða skemmtilegustu lögin flutt og á sunnudaginn flytur hljómsveitin leiðilegustu lögin.

„Flestir vilja heyra sömu lögin, það er bara þannig. Það vilja allir heyra vinsælustu lögin, skemmtilegustu lögin sem eru á safnplötum og spiluð í útvarpinu og svona,“ segir hann og heldur áfram: „Svo er náttúrulega fólk sem mætir á hverju ári og okkur langaði að auka þjónustustigið hjá okkur og bjóða upp á aðra tónleika sem væru með leiðilegustu lögunum. Lögin sem eru eiginlega aldrei spiluð í útvarpinu. Þau eru þyngri, lengri, dýrpri eða á einhvern hátt flóknari.“

Jón segir sveitina muna leika rúmlega 50 lög á þessum tvennu tónleikum. „Skemmtilegustu lögin verða á laugardeginum í stóra Eldborgarsalnum, af því það er svo skemmtilegt á laugardögum,“ segir Jón sposkur og heldur áfram: „Leiðilegustu lögin eru í minnsta salnum í Hörpu, Kaldalóni, á sunnudagskvöldið af því það er svo leiðilegt.“

Hann segir þetta fyrirkomulag þó krefjast talsverðra útskýringa af hálfu hljómsveitarmeðlima og Lífið fékk hann til að fara yfir hvaða lög sveitarinnar falli í flokk skemmtilegustu eða leiðilegustu laga sveitarinnar.

Skemmtilegustu lögin



Flugvélar

Íslendingar hafa náð að tengja all verulega við þetta lag og það er ekki langt síðan yfir 10.000 manns sungu þetta með okkur í brekkunni í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum.

Nýr maður

Óvenju fjörugt lag frá sveitinni. Eitt vinsælasta lagið af plötunni Diskó Berlín sem hljómsveitin sendi frá sér í fyrra. "Það er gott að dansa!"

Frelsið

Lag sem kom út árið 1990 á hljómplötunni Regnbogaland. Margir vísa gjarnan í texta lagsins til að lýsa líðan sinni: "Frelsið er yndislegt ég geri það sem ég vil."

Þá kemur þú

Gullfallegt en jafnframt dramatískt lag og texti, samt ekki leiðinlegt. Þetta náði vinsældum þegar það kom út í annað sinn, á hljómplötunni Nýdönsk & Sinfó þar sem Björn Jörundur rífur úr sér hjartað við flutninginn.

Nostradamus

Vinsældir þessa lags komu hljómsveitarmeðlimum töluvert á óvart á sínum tíma enda flókið í forminu með mörgum köflum. Síendurtekið viðlagið gerir þó sennilega gæfumuninn þannig að lagið fer í skemmtilega flokkinn.

Leiðinlegustu lögin



Stjörnuryk

Lag og texti eftir Jón Ólafsson af plötunni Deluxe sem skaut hljómsveitinni í fremstu röð árið 1991. Náði ekki eyrum útvarpsmanna og hefur sárasjaldan verið flutt á tónleikum.

Ríki konunganna

Stefán Hjörleifsson, gítarleikari, er með mjög persónulegan stíl sem lagahöfundur. Þetta lag ber öll hans höfundaeinkenni og fer um víðan völl á akri tónfræðinnar. Flókið lag að spila og töluvert tormelt að auki.

Leiðinlegasta lag í heimi

Þetta lag verður að vera í flokk leiðinlegu laganna - þó ekki væri nema út af titlinum og yrkisefninu.

Sviti

Flókin útsetning á töff lagi af hljómplötunni Hunang. Það var aldrei spurning um í hvorn flokkinn þetta lag færi.

Tré

Eitt af fyrstu lögum Daníels. Í miklu uppáhaldi hjá mörgum en þetta er sjaldan flutt í útvarpi og hljómsveitin sennilega bara einu sinni leikið það opinberlega áður; á sjálfum útgáfutónleikum Regnbogalands. Marglaga músíktré með stofni, greinum og blöðum.

Kynna Nýlundann til leiks

Á tónleikunum mun hljómsveitin einnig kynna Nýlundan.

„Goggurinn á lundanum er í fánalitunum okkar. Þannig þetta er mjög eigulegt fyrir aðdáendur sveitarinnar en um er að ræða 100 tölusetta og áritaða Nýlunda,“ segir Jón um hinn nýja söluvarning sveitarinnar.

„Við ákváðum að bæta lundum við af þvi þeir eru svo vinsælir í miðbænum þannig okkur fannst í raun sjálfsögð þjónusta við aðdáendur okkar að bjóða upp á lunda líka.“

En líkt og glöggir lesendur sjá eru lundinn og Daníel Ágúst, söngvari sveitarinnar með áþekkan vangasvip.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.