Íslenska karlalandsliðið í körfubolta tapaði í kvöld fyrir Eistlandi í æfingamóti þar í landi. Lokatölur 85-65, Eistlandi í vil.
Íslenska liðið hitti aðeins úr 22,7% þriggja stiga skota sinna í leiknum og var í vandræðum í sóknarleiknum.
Haukur Helgi Pálsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 17 stig en Hlynur Bæringsson kom næstur með 14 stig og sjö fráköst. Martin Hermannsson gerði níu stig og Logi Gunnarsson átta.
Eistarnir leiddu með níu stigum, 18-9, að loknum 1. leikhluta og í hálfleik var munurinn kominn upp í 12 stig, 40-28.
Íslensku strákunum gekk betur upp í 3. leikhluta og Logi minnkaði muninn í sjö stig, 53-46, þegar tvær og hálf mínúta var eftir af leikhlutanum.
En nær komst íslenska liðið ekki. Eistarnir gáfu aftur í og unnu að lokum 20 stiga sigur, 85-65.
Jón Arnór Stefánsson var hvíldur í leiknum í kvöld vegna smávægilegra meiðsla.
Ísland mætir Hollandi klukkan 14:30 á morgun og á laugardaginn mætir íslenska liðið Filipseyjum, einnig klukkan 14:30.
