Viðskipti erlent

Ríkustu menn heims töpuðu andvirði 40 billjóna króna á síðustu dögum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Í gær tapaði Bill Gates upphæð sem nemur um tveimur þriðju af árlegri skattinnheimtu ríkissjóðs.
Í gær tapaði Bill Gates upphæð sem nemur um tveimur þriðju af árlegri skattinnheimtu ríkissjóðs. vísir/getty
Fjögurhundruð ríkustu menn heims töpuðu samtals 124 milljörðum dollara í gær ofan á þá 182 milljarða dollara sem töpuðust í síðustu viku. Samtals hafa þeir því tapað 310 milljörðum dollara á síðustu dögum.

Sé tap síðustu daga reiknað yfir í íslenskrar krónur nemur að tæpum fjörutíu billjónum eða 39.990 milljörðum til að hafa upphæðina nákvæma. Til að setja upphæðina í samhengi innheimtir íslenska ríkið um sexhundruð milljarða á ári í skatta og verg landsframleiðsla ársins 2014 var tæpir 2.000 milljarðar króna. Vikutapið nemur því tuttugufaldri vergri landsframleiðslu Íslands.

24 milljarðamæringar töpuðu meiru en milljarði dollara, um 130 milljörðum króna, á gærdeginum einum. Þar má nefna Bill Gates, eiganda Microsoft, sem tapaði 3,2 milljörðum og Jeff Bezos, eiganda Amazon, sem tapaði 2,6 milljörðum dollara. Mexíkóinn Carlos Slim, sem var ríkasti maður heims árin 2010-2013, tapaði 1,6 milljörðum dollara og hefur ekki verið jafn fátækur síðan árið 2012.

Tapið má að stærstum hluta rekja til óstöðugleika á mörkuðum í Asíu en verðbréfamarkaðir í Kína hafa verið í frjálsu falli undanfarna daga og vikur.

Inn á vef Bloomberg er hægt að skoða hve miklu auðkýfingar heimsins hafa tapað eða grætt á síðustu dögum. Hægt er að flokka fólkið niður eftir kyni, aldri, iðnaði og hægt skoða gengi þeirra á mismunandi tímum. Smelltu hér til að skoða gagnvirka listann


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×