Aníta kom í mark á tímanum 2:01.01 mínútum sem er einu sekúndubroti frá Ólympíulágmarkinu sem er 2:01:00. Ólympíuleikarnir fara sem kunnugt er fram í Ríó í Brasilíu næsta sumar.
„Mjög góður árangur hjá Anítu í morgun hér í Beijing og vantaði herslumuninn á að hann væri frábær,“ segir Gunnar Páll á Facebook. „Sigraði margar sem eiga betri tíma en hún og var mjög nálægt því að komast í undanúrslit.“
Hlaupið var það besta hjá Anítu á árinu en hún átti áður best 2:01.15 mínútur á móti í Belgíu snemma í ágúst.

„Þar fyrir utan var hún eins nálægt Ólympíulágmarki og hægt er, lágmarkið 2:01:00 og hún hljóp á 2:01:01 mín. Ekki það að hún á efir að hakka þetta lágmark en það hefði verið ljúft að vera bara komin með það - gæti komið í næsta hlaupi,“ segir Gunnar Páll.
Hlaupa þurfti á 2:00.70 mínútum til að komast í undanúrslit. Aníta var aftarlega þangað til síðustu tvö hundruð metrana þegar hún átti góðan endasprett. Hún átti næstbesta tíma þeirra sem komust ekki í undanúrslit.
Sex konur komust áfram þrátt fyrir að hlaupa hægar en Aníta en þær tryggðu sér sitt sæti með því að ná einu af þremur efstu sætunum í sínum riðli.