Sport

Tíu ára stelpa synti í fullorðinsflokki á HM í sundi í morgun | Myndir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alzain Tareq.
Alzain Tareq. Vísir/EPA
Alzain Tareq setti nýtt met á HM í sundi í morgun þegar hún varð yngsti sundmaðurinn frá upphafi til að taka þátt í HM fullorðinna í sundi.

Alzain Tareq endaði þá í 64. og síðasta sæti í 50 metra flugsundi. Tareq synti á 41,13 sekúndum og var 15,70 sekúndum á eftir fyrstu konu.

Alzain Tareq, sem er frá Barein, er fædd árið 2005 og er því aðeins tíu ára gömul. Hún er dóttir Tareq Salem sem var atvinnusundmaður á sínum tíma.

Keppt á fullorðinsmótum frá sjö ára aldri

Alzain Tareq er aðeins 130 sentímetrar á hæð en er þegar orðin besta sundkonan í heimalandi sínu. Tvær aðrar sundkonur keppa fyrir þjóðina en þær eru 15 ára og 18 ára. Alzain Tareq hefur keppt á fullorðinsmótum í Bareins síðan að hún var aðeins sjö ára gömul.

„Ég er mjög ánægð en ég var svolítið stressuð," sagði Alzain Tareq eftir sundið en þátttaka hennar vakti mikla athygli á HM í Kazan í morgun.

FINA, Alþjóðasundsambandið, hefur verið gagnrýnt fyrir það að svo ungur keppandi fái þátttökurétt á heimsmeistaramótinu en ekkert aldurslágmark er inn á HM í 50 metra laug.

Keppir í 50 metra skriði á morgun

„Þetta var gaman. Nú vil ég reyna að bæta mig í 50 metra skriðsundinu," sagði Alzain Tareq en hún keppir í því á morgun.

Alzain Tareq tók þátt í sömu grein og Bryndís Rún Hansen sem setti nýtt Íslandsmet í 50 metra flugsundinu með því að koma í mark á 26,79 sekúndum. 

Alzain Tareq fyrir sundið.Vísir/EPA
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Bryndís Rún með Íslandsmet á HM í morgun

Akureyringurinn Bryndís Rún Hansen, sundkona úr Óðni, bætti sitt eigið Íslandsmet í 50 metra flugsundi í morgun á Heimsmeistaramótinu í 50 metra laug í Kazan í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×