„Ég var mjög sátt með árangurinn í Murph [fyrstu grein gærdagsins] en stefnan var sett á að vera í topp tíu,“ segir hún. „Ég fann vel fyrir hitanum í þeirri æfingu. Upphífingarnar byrjuðu hægt en svo gekk mjög vel í armbeygjunum og ég náði að saxa helling á hinar stelpurnar þar.“
Þriðji keppnisdagur er í dag og segist Ragnheiður Sara þegar farin að einblína á næstu keppnisgreinar.
Bein útsending: Dagur þrjú á Heimsleikunum í CrossFit
Björgvin Karl Guðmundsson stendur sömuleiðis vel að vígi fyrir daginn í dag. Hann er í fjórða sæti í karlaflokki en í gær sigraði hann í Murph-greininni svokölluðu.
„Mér leið hrikalega vel í sjónum og jafnvægislega séð á brettinu,“ segir Björgvin. „Það vissi enginn fyrirfram hverjir væru að fara að vera góðir á brettunum nema Ástralarnir, sem eru þekktir fyrir reynslu af brimbrettum. Persónulega hef ég lagt nokkuð mikið í sundæfingar síðastliðið ár og skilaði það sér mjög vel í dag.“
Katrín Tanja Davíðsdóttir fylgir fast á hæla Ragnheiðar Söru, hún er í þriðja sæti í kvennaflokki og átti sömuleiðis mjög góðan dag í gær. Hún segir þó að henni hafi ekki liðið vel í Murph-greininni undir hinni sterku Kalíforníu-sól, en hitinn í gær reyndist mörgum keppendum mjög erfiður.
„Í rauninni hef ég aldrei séð neina grein fara jafn illa með jafn marga,“ segir Katrín. „Ég heyrði að sjúkratjaldið hafi verið stútfullt eftir þetta. Svo ég get ekki verið annað en ánægð með hvernig gekk þó það hafi verið rosalega heitt og svimi á köflum.“
Annie Mist Þórisdóttir lenti í miklum vandræðum í Murph vegna hitans og lýsir vonbrigðum sínum á Instagram-síðu sinni. Hún situr í áttunda sæti fyrir daginn í dag.