Fótbolti

Glódís á toppinn | Arnór Ingvi hafði betur gegn Ögmundi og Birki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Glódís Perla er með Eskilstuna á toppnum.
Glódís Perla er með Eskilstuna á toppnum. vísir
Landsliðsmiðvörðurinn Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur hennar í sænska úrvalsdeildarliðinu Eskilstuna United unnu 3-1 sigur á Hammarby í kvöld.

Kamerúnski framherjinn Gaëlle Enganamouit, sem sló í gegn á HM í Kanada, skoraði öll þrjú mörk heimakvenna.  Það fyrsta skoraði hún á 16. mínútu þegar hún fylgdi eftir stangarskoti Glódísar eftir hornspyrnu.

Hún bætti við öðru marki á 34. mínútu áður en Hammarby jafnaði, 2-1, en Enganamouit gulltryggði svo sigurinn á 52. mínútu leiksins.

Með sigrinum komst Eskilstuna í toppsæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 24 stig, en Sara Björk Gunnarsdóttir og liðsfélagar hennar í meistaraliði Rosengård eru í öðru sæti með 23 stig.

Karlalið Hammarby tapaði einnig í kvöld, en liðið lá í valnum á heiamvelli gegn Arnóri Ingva Traustasyni og félögum hans í Norrköping.

Emir Kujović skoraði eina mark leiksins fyrir gestina á 37. mínútu, en Arnór Ingvi fékk gult spjald á 21. mínútu.

Ögmundur Kristinsson stóð vaktina í marki Hammarby annan leikinn í röð, en hann fékk á sig þrjú mörk í sínum fyrsta leik í síðustu viku. Birkir Már Sævarsson spilaði einnig alla leikinn í bakverðinum hjá nýliðunum.

Norrköping er að spila frábærlega á tímabilinu, en liðið er nú með 35 stig líkt og topplið Gautaborgar eftir 17 umferðir. Hamamrby er í ellefsta sæti með 18 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×