Íslenski boltinn

KA heldur lífi í draumi sínum um sæti í efstu deild

Ævar Ingi Jóhannesson skoraði eina mark leiksins á 5. mínútu og tryggði þar með KA sigur á Þór.
Ævar Ingi Jóhannesson skoraði eina mark leiksins á 5. mínútu og tryggði þar með KA sigur á Þór. vísir/stefán
KA og Þór mættust í hörkuleik á Akureyrarvelli í dag en þetta var fyrsta innbyrgðisviðureign liðanna í deildarkeppni síðan 2012. Leikurinn var gríðarlega þýðingarmikill fyrir liðin sem bæði stefna á sæti í Pepsi-deildinni á næstu leiktíð.

Ævar Ingi Jóhannesson hefur verið funheitur í liði KA á þessari leiktíð og það tók hann ekki nema 5. mínútur að koma KA yfir. Hann slapp þá einn í gegn og skoraði í annarri tilraun framhjá Sandor Matus, markverði Þórs.

Sandor kom heldur betur við sögu á 14. mínútu. Þá átti Orri Sigurjónsson, leikmaður Þórs, slaka sendingu tilbaka, Húsvíkingurinn Elfar Árni Aðalsteinsson, leikmaður KA, komst inn í sendinguna og Sandor felldi hann utan teigs. Beint rautt spjald niðurstaðan og Þór manni færri.

KA-menn geta þakkað Srdjan Rajkovic markverði sínum fyrir að Þór hafi ekki jafnað metin á 68. mínútu. Þá slapp Sveinn Elías Jónsson einn í gegn en Rajkovic varði frábærlega frá honum.

KA hélt þetta út og fór að lokum með 1-0 sigur af hólmi. KA komst þar með upp fyrir Þór á markatölu en bæði lið eru með 18 stig, KA í 4. sæti en Þór í því fimmta. KA hefur auk þess leikið einum leik færra en nágrannar sínir í Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×