Dagskráin hefst með fjallgöngu sem farin er frá Ráðhústorginu klukkan 13 á miðvikudag og lýkur með Stjörnustríðstónleikum Sinfóníuhljómsveitar unga fólksins í Siglufjarðarkirkju klukkan 14 á sunnudag.

Helsta ástæðan fyrir því er sú, að á Siglufirði myndast einstakt andrúmsloft meðan á hátíðinni stendur, innlendir sem erlendir gestir skapa með sér samhljóm sem aðeins kviknar í þröngum fjallasal norður við heimskautsbaug.
Á lognkyrrum sumarkvöldum skín gleði úr hverju andliti og allt er sem standi í stað, fuglar þagna, aldan kyrrist, sumarnótt á Siglufirði er einstök uppspretta friðsældar og gleði.

Frá Noregi kemur söngkonan Elisbeth Holmertz ásamt fríðum flokki hljóðfæraleikara að flytja tónlist frá tímum Ólafs helga Noregskonungs, bandaríski fiðlusnillingurinn Jamie Laval strýkur skosk þjóðlög af strengjum, Silver Sepp frá Eistlandi hamrar ásamt Kristiinu Ehin á ryðgaða nagla og kennir eistneska þjóðdansa.
Þá leika portúgölsku tónlistarmennirnir Joao Afonso og Filipe Raposo ástar- og byltingarsöngva landa síns José Afonso.
Á hátíðinni má heyra finnskt klezmer, einnig lög sem hin sænska Mónika Zetterlund gerði vinsæl á sínum tíma og loks verða kenndir dansar sem nutu vinsælda í Danmörku á 18. öld – og þar með einnig á Íslandi.

Rósa Jóhannesdóttir og fjölskylda kveða vísur handa börnum, Hallveig Rúnarsdóttir syngur sönglög Sigursveins D. Kristinssonar og fleiri íslenskra tónskálda.
Söngkvartettinn Kvika fer með tvísöngsstemmur og fjórradda sönglög og Hundur í óskilum kemur með Lúðrasveitina Svaninn með sér norður til þess að flytja rjómann af vinsælustu lögum sínum.
Hin síunga Heddý úr Stykkishólmi vermir hjörtun með vinsælum dægurlögum og síðast en ekki síst frumflytur Sinfóníuhljómsveit unga fólksins nýjan fiðlukonsert eftir Hildigunni Rúnarsdóttur, sem byggir að hluta á íslenskum þjóðlögum. Einleikari er Sólrún Gunnarsdóttir.
Siglufjörður er heimili íslenska þjóðlagsins. Þar bjó sr. Bjarni Þorsteinsson í hálfa öld og gaf út þjóðlagasafn sitt fyrir rúmum 100 árum.

Gunnsteinn Ólafsson er listrænn stjórnandi Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði.
Nánar um Þjóðlagahátíðina á Siglufirði á folkmusik.is.