Fótbolti

Viking aftur á sigurbraut

Anton Ingi Leifsson skrifar
Indriði í leik með Viking.
Indriði í leik með Viking. vísir/getty
Viking frá Stavangri komst aftur á sigurbraut í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag, en liðið lagði Bodo/Glimt 3-0.

Fyrir leikinn hafði Viking tapað tveimur leikjum í röð, en þeir gerðu út um leikinn í fyrri hálfleik. Veton Berisha kom þeim yfir á fjórtándu mínútu og Yann-Erik de Lanlay tvöfaldaði forystuna átta mínútum síðar.

Samuel Adegbenro kom Viking svo í 3-0 á 35. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik. Ekki urðu mörkin fleiri í þeim síðari og mikilvægur sigur Viking staðreynd.

Einungis einn Íslendingur var í byrjunarliði Viking, en það var Indriði Sigurðsson. Hann spilaði allan leikinn, en Steinþór Freyr Þorsteinsson kom inná sem varamaður og spilaði síðustu átta mínúturnar. Jón Daði Böðvarsson sat allan tímann á bekknum.

Viking er komið í fjórða sætið, en þeir eru með 22 stig, tveimur stigum á eftir Vålerenga sem er í því þriðja. Bodo/Glimt er í því fimmtánda með átta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×