Erlent

Birtu myndband af grimmilegum morðum ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Úr myndbandinu.
Úr myndbandinu.
Íslamska ríkið birti í dag eitthvað grimmilegasta myndband samtakanna hingað til. Myndbandið, sem ber merki fjölmiðlunardeildar Íslamska ríkisins, sýnir aftökur manna í þremur hópum. Allt í allt eru mennirnir fleiri en tólf, en þeir eru sagðir vera njósnarar.

Talið er að myndbandið sé tekið upp í Nineveh héraði í Sýrlandi. Sjá má mennina viðurkenna meinta glæpi sína gegn Íslamska ríkinu áður en þeir eru myrtir.

Fyrstu fjórir mennirnir eru bundnir fastir inn í bíl, áður en vígamaður skýtur sprengju í bílinn. Annar hópur manna er læstur inn í búri sem látið er síga í sundlaug þar sem mennirnir drukkna. Í þriðju aftökunni er hópi manna raðað upp og þeir settir niður á hnén. Því næst vefur vígamaður sprengiþræði um hálsa þeirra allra og sprengir þá svo í loft upp.

Fyrr í morgun báust fregnir af því að vígamenn Íslamska ríkisins hafi myrt tvo táninga fyrir að borða að degi til og rjúfa því Ramadan föstunni. Það á að hafa gerst í Mayadeen í Sýrlandi.

AFP fréttaveitan segir frá því að lík drengjanna hafi verið hengd upp til sýnis og um háls þeirra hafi verið hengd skilti sem á stóð að þeir hafi rofið föstuna.

Fregnir af misþyrmingum vígamanna ISIS eru algengar af því stóra svæði sem samtökin stjórna í Sýrlandi og Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×