Körfubolti

Frábærar fréttir fyrir Njarðvík | Bonneau áfram í Ljónagryfjunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefan Bonneau.
Stefan Bonneau. Vísir/Valli
Stefan Bonneau, hinn magnaði leikmaður Njarðvíkinga í Dominos-deildinni í körfubolta, mun spila áfram með liðinu á næstu leiktíð en hann hefur skrifað undir nýjan samning. Þetta kemur fram á karfan.is.

Stefan Bonneau kom til Njarðvíkinga um áramótin og var með 34,0 stig og 5,2 stoðsendingar að meðaltali í deild og úrslitakeppni.

Stefan Bonneau skoraði 52 stig í síðasta leiknum þar sem Njarðvíkingar töpuðu í tvíframlengdum oddaleik í undanúrslitum á móti verðandi Íslandsmeisturum í KR.

„Við erum himinlifandi með niðurstöðuna enda Stefan stórkostlegur leikmaður. Stefan er einnig frábær liðsmaður innan vallar sem utan, hefur góð áhrif á liðsfélaga sína og gerir þá alla að betri leikmönnum, " sagði Gunnar Örlygsson formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur í samtali við Karfan.is.

Það bjuggust flestir við því að Stefan Bonneau færi í sterkari deild enda eiginlega alltof góður fyrir Dominos-deildina en Njarðvíkingar hafa örugglega látið alla þjálfara hinn liðanna í deildinni svitna aðeins við þessar fréttir.

Stefan Bonneau er líka sannkallað tilþrifatröll og það má því áfram búast við mikilli skemmtun þegar menn mæta á leiki Njarðvíkurliðsins sem var eitt allra besta lið deildarinnar eftir að Bonneau kom til félagsins.

Hér fyrir neðan má sjá nokkur af tilþrifum Stefan Bonneau frá því í úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×